Ársþing

Þórður Einarsson fékk Jafnréttisverðlaun

Hefur unnið ötullega að útbreiðslu knattspyrnuíþróttarinnar með það að sjónarmiði að öll börn fái jöfn tækifæri til að iðka knattspyrnu

14.2.2015

Jafnréttisverðlaun KSÍ hlýtur Þórður Einarsson, framkvæmdastjóri Leiknis.  Þórður Einarsson er Leiknismaður og Breiðhyltingur fram í fingurgóma.  Hann lék með Leikni í yngri flokkum og í meistaraflokki og hefur þjálfað og starfað þar um langt árabil, þrátt fyrir ungan aldur. 

Hann hefur unnið ötullega að útbreiðslu knattspyrnuíþróttarinnar með það að sjónarmiði að öll börn fái jöfn tækifæri til að iðka knattspyrnu, burtséð frá fjölskylduaðstæðum, efnahag eða öðrum þáttum.  Í því samhengi má nefna að hann safnar takkaskóm og æfingafatnaði handa þeim sem hafa minna á milli handanna.  Þórður var einnig hvatamaður að því að námsver var sett á laggirnar í Leiknisheimilinu þar sem börn sem þurfa hjálp við heimalærdóm, en eiga erfitt með að fá þá hjálp heima fyrir, geta fengið aðstoð undir handleiðslu kennara úr Fellaskóla.

Ástríðan sem Þórður hefur fyrir knattspyrnuíþróttinni, félaginu sínu og samfélaginu dylst engum og það jafnréttisstarf sem Þórður hefur verið hvatamaðurinn að hjá sínu félagi er til mikillar fyrirmyndar.

Ársþing
Aðildarfélög
Aðildarfélög