Pistlar
Geir Þorsteinsson

Íslensk knattspyrna var í sviðsljósinu árið 2014

Góður árangur margra landsliða á árinu

6.2.2015

Íslensk knattspyrna var í sviðsljósinu árið 2014, frábær frammistaða A landsliðs karla vakti athygli í heimi knattspyrnunnar. Sigur á HM bronsliði Hollands á Laugardalsvelli í október var tvímælalaust hápunktur ársins. Aldrei fyrr hefur sigurleikur í keppni skapað jafnmikla umfjöllun um íslenska knattspyrnu á erlendum vettvangi. Árangur Stjörnunnar í undankeppni Evrópudeildarinnar vakti einnig athygli og aðdáun. Félagið tók í fyrsta sinn þátt og lagði þrjá mótherja að velli, sem er íslenskt met, en beið ósigur fyrir stórliði Inter Milan í umspili.

A landslið karla hóf leik í undankeppni EM 2016. Eftir 3 sigurleiki í röð beið liðið ósigur gegn Tékkum í Plzen og situr nú í öðru sæti í sínum riðli þegar fjórum umferðum af tíu er lokið. Þessi góða byrjun gefur fyrirheit um gott gengi í undankeppninni og stefnan er sett á úrslitakeppnina í Frakklandi 2016, en í fyrsta sinn munu 24 landslið leika til úrslita. Liðin í tveimur efstu sætunum í hverjum riðli undankeppninnar, en riðlarnir eru 9, komast í úrslitakeppnina auk þess liðs sem bestum árangri nær í 3. sæti. Hin átta liðin í 3. sæti riðlakeppninnar leika í umspili um fjögur sæti í úrslitakeppninni. Landslið Frakklands tekur svo vitanlega þátt sem gestgjafar. Í sumar byrjar undirbúningur fyrir HM 2018 í Rússlandi þegar dregið verður í riðla í St. Pétursborg 25. júlí en undankeppnin í Evrópu hefst haustið 2016.

A landslið kvenna átti gott ár en tókst ekki að komast í úrslitakeppni HM 2015 sem fram fer í Kanada, en þar leika í fyrsta sinn 24 þjóðir til úrslita í HM A landsliða kvenna. Tveir ósigrar gegn öflugu landsliði Sviss og einn gegn Danmörku urðu til þess að Ísland sat eftir. Sviss sigraði af öryggi í riðlinum og komst á HM en Ísland hafnaði í öðru sæti, stigi á undan Danmörku. Kynslóðaskipti halda áfram hjá liðinu sem undirbýr sig nú fyrir undankeppni EM 2017, en úrslitakeppnin fer fram í Hollandi. Í fyrsta sinn leika þar 16 þjóðir til úrslita. Dregið verður í riðla í undankeppninni 13. apríl nk. og er landslið Íslands í efsta styrkleikaflokki.

U21 landslið karla náði góðum árangri í undankeppni EM 2015, hafnaði í 2. sæti í sínum riðli á eftir Frakklandi. Liðið vann sér rétt til að leika í umspili gegn landsliði Danmerkur um laust sæti í úrslitakeppninni, sem fram fer í Tékklandi. Eftir markalaust jafntefli í Álaborg og jafntefli, 1-1, í síðari leiknum á Laugardalsvelli kom það í hlut Dana að fara áfram. Dregið hefur verið í riðla í undankeppni EM 2017 og leikur Ísland í riðli með Frakklandi, Úkraínu, Skotlandi, Makedóníu og N-Írlandi. Úrslitakeppnin fer fram í Póllandi og munu 12 þjóðir leika til úrslita í stað 8 eins og verið hefur. Pólland og 9 sigurvegarar riðlanna í undankeppninni leika til úrslita auk þess sem þau fjögur landslið sem bestum árangri ná í öðru sæti í sínum riðlum leika í umspili um tvö laus sæti.

U19 landslið kvenna og U17 landslið karla komust á árinu áfram úr undankeppni EM 2014/15 og leika í milliriðlum í vor. U17 landslið kvenna tók ekki þátt í undankeppni EM þar sem úrslitakeppnin fer fram á Íslandi næsta sumar og liðið tekur sjálfkrafa þátt sem gestgjafar. Þetta verður í þriðja sinn sem úrslitakeppni yngri landsliða fer fram á Íslandi. Þetta er stórt verkefni sem kallar á mikinn undirbúning og samstarf við aðildarfélögin við framkvæmd leikja. Til úrslita leika átta landslið í tveimur fjögurra liða riðlum í Reykjavík og nágrenni. Ísland (drengjalandslið) tók þátt í Ólympíuleikum ungmenna í Nanjing í Kína í ágúst og var fulltrúi Evrópu, en alls tók 6 lið þátt - eitt frá hverri heimsálfu. Ísland hlaut mikinn sóma af þátttöku sinni og vann liðið bronsverðlaun.

Slæmt ástand grasvalla á höfuðborgarsvæðinu setti mikinn svip á mótahald KSÍ í byrjun sumars svo grípa varð til þess úrræðis að leika á varavöllum í meistaraflokki upp í efstu deild, auk þess sem það var mikil áskorun að koma mörgum leikvöllum í stand fyrir sumarið. Það tókst og í byrjun júní var mótahaldið að mestu komið í fastar skorður. Árið 2014 var ár Stjörnunnar úr Garðabæ, félagið varð Íslandsmeistari í meistaraflokki karla í fyrsta sinn auk þess að vinna tvöfalt (deild og bikar) í meistaraflokki kvenna. Frumraun Stjörnunnar í undakeppni Evrópudeildarinnar var glæsilegur vitnisburður fyrir íslenska knattspyrnu. Liðið lagði 3 mótherja af velli áður en það mætti stórliði Inter Milan í umspili um sæti í Evrópudeildinni 2014/15. Stjarnan mætti Inter á Laugardalsvelli í fyrri leiknum og var uppselt á leikinn og viku síðar mættust liðin á San Síró leikvanginum í Mílanó. Inter var mun sterkari aðilinn og komst áfram. FH átti gott ár í undankeppni Evrópudeildarinnar en féll úr leik í þriðju umferð. KR varð bikarmeistari í 14. sinn í meistaraflokki karla. Leiknir R. komst í fyrsta sinn í sögunni í efstu deild karla eftir sigur í 1. deild.

Fræðslustarf KSÍ skipaði sem fyrr veigamikinn sess í starfsemi sambandsins, sérstaklega fyrir þjálfara og dómara, og voru fjölmörg námskeið haldin auk þátttöku í námskeiðum erlendis. Síaukin fræðsla hefur tvímælalaust gert knattspyrnustarfið faglegra. Íslenskir þjálfarar fá nú tækifæri erlendis sem er góð viðurkenning fyrir okkar knattspyrnustarf. Starfsemi í hæfileikamótun KSÍ var efld á árinu og fóru fulltrúar KSÍ í á þriðja tug heimsókna vítt og breitt um landið, héldu fyrirlestra fyrir iðkendur og stjórnuðu æfingum. En starfsemi KSÍ er mikil á öllum sviðum og það endurspeglar ársreikningur KSÍ. Rekstrarhagnaður var af hefðbundinni starfsemi upp á tæplega 157 m.kr. Með framlögum og styrkjum til aðildarfélaga (um 29 m.kr. í mannvirki og um 150 m.kr. í aðra styrki) og fjármagnsliðum varð niðurstaðan hagnaður upp á 10,8 m.kr.  Fjárhagsstaða KSÍ er traust við þessi tímamót.

Stjórn KSÍ þakkar aðildarfélögunum fyrir afar gott knattspyrnustarf á liðnu starfsári. Samstarf við forystumenn félaganna var mikið og gott og ber að þakka þeim þeirra mikilvægu störf. Stjórn KSÍ þakkar einnig öllum þeim sem lagt hafa knattspyrnunni lið á árinu, s.s. dómurum, eftirlitsmönnum, nefndarmönnum, sjálfboðaliðum, stuðningsmönnum, samstarfsaðilum, fjölmiðlum og starfsmönnum hreyfingarinnar, og að síðustu en ekki síst öllum þeim fjölda iðkenda sem leika knattspyrnu sér til skemmtunar.
Pistlar
Aðildarfélög
Aðildarfélög