Pistlar
Geir Þorsteinsson

Landsliðin okkar

Pistill formanns KSÍ

17.9.2014

Það er svolítið sérstakt að finnast maður vera að bera í bakkafullan lækinn að skrifa um góðan árangur landsliðanna okkar á síðustu árum.  Við erum jú vissulega fámenn þjóð, ein af þeim fámennari í Evrópu, og árangur okkar landsliða vekur sífellt meiri athygli hérlendis sem erlendis.  Það er eitt að ná góðum árangri í einni undankeppni stórmóts, en það er enn meira afrek að endurtaka leikinn og viðhalda góðum árangri til lengri tíma.

Árangur A landsliðs kvenna er gott dæmi um þetta.  Ísinn var brotinn þegar stelpurnar okkar komust í úrslitakeppni EM 2009 í Finnlandi og endurtóku svo leikinn með því að komast í úrslitakeppni EM í Svíþjóð 2013, þar sem þær gerðu gott betur og náðu í 8-liða úrslit, sem er frábær árangur.  Í millitíðinni mátti ekki miklu muna að liðið kæmist í umspil fyrir HM 2011 og hið sama var uppi á teningnum nú í undankeppni HM 2015.  Ákveðin þáttaskil eru að eiga sér stað í kvennalandsliðinu.  Ungir leikmenn eru að ryðja sér til rúms í landsliðshópnum og munu án efa setja mark sitt á leik liðsins á næstu árum.

Annað dæmi er A landslið karla.  Í undankeppni HM 2014 fór liðið lengra en nokkru sinni áður og það er í raun ótrúlegt að hugsa til þess að í hálfleik í seinni umspilsleiknum í Zagreb hafi liðið verið 45 mínútum og einu marki frá því að tryggja sér farseðilinn til Brasilíu.  Vonbrigðin voru vissulega gríðarleg, en við megum ekki gleyma því að sá árangur sem náðist var stórkostlegur og vakti heimsathygli.  Úrslitin í fyrsta leik liðsins í undankeppni EM 2016 vöktu ekki síður heimsathygli, ekki einungis fyrir þá staðreynd að þriggja marka sigur vannst á mikilli knattspyrnuþjóð sem telur einar 82 milljónir manna, heldur einnig vegna þess að áfram er haldið þar sem frá var horfið í síðustu undankeppni.  Liðið á nóg inni og stefnan er tekin á úrslitakeppnina í Frakklandi sumarið 2016.

U21 landslið karla lék vel í undankeppni EM og náði frábærum árangri. Liðið er eitt af 14 bestu í Evrópu um þessar mundir og leikur tvo umspilsleiki gegn Dönum í október um sæti í úrslitakeppninni sem fer fram í Tékklandi næsta sumar. Í Tékklandi verður svo leikið um sæti á Ólympíuleikunum í Ríó 2016 svo það er að miklu að keppa.

Yngri landsliðin okkar eru síðan alveg sér kapítuli og það er hreint með ólíkindum hversu oft liðin okkar komast upp úr sínum undanriðlum og veita stærstu og sterkustu knattspyrnuþjóðum Evrópu harða keppni.  Leikmenn okkar hafa mjög góða knatttækni, leikskilning og eru ekki síst agaðir og skipulagðir, sem er gríðarlega mikilvægt í liðsíþrótt eins og knattspyrnu.  Ekki má gleyma íslenskum baráttuanda, sem skilar sér til ungviðisins okkar, kynslóð eftir kynslóð.

Rétt er að geta sérstaklega og halda á lofti frábærum árangri U15 landsliðs karla sem kom heim með bronsverðlaun frá Ólympíuleikum ungmenna sem fram fóru í Kína í ágúst. Ferðin og keppnin var einstök reynsla fyrir alla þátttakendur og drengirnir voru landi og þjóð til sóma.

Þessi árangur er þó engin tilviljun og byggir fyrst og fremst á nokkrum lykilþáttum eins og þeirri aðstöðu sem íslensk félagslið hafa til æfinga og keppni fyrir yngri iðkendur og þá þjálfara sem aðildarfélögin hafa ráðið til starfa, fagfólk með mikla og góða menntun og reynslu.  Ég hef sagt það áður og hér segi ég það enn, að framtíð íslenskrar knattspyrnu er svo sannarlega björt. 

Geir Þorsteinsson

formaður KSÍ
Pistlar
Aðildarfélög
Aðildarfélög