Pistlar
Hermann Gunnarsson í landsleik

Kveðja til Hemma Gunn

Hermann Gunnarsson var einn af mestu markakóngum íslenskrar knattspyrnusögu

28.6.2013

Það er kunnara, en frá þurfi að greina, að markakóngar í knattspyrnu njóta mikilla vinsælda. Hermann Gunnarsson var einn af markakóngum íslenskrar knattspyrnu og naut sem slíkur mikilla vinsælda. Hann naut ekki síður vinsælda sem hinn jákvæði og hláturmildi Hemmi Gunn sem lagði gott til málanna. Þess naut knattspyrnuhreyfingin ríkulega sem og stuðnings hans og hvatningar.  

Hermann Gunnarsson var Valsmaður og lék með félaginu í öllum aldursflokkum. Hann varð Íslandsmeistari í meistaraflokki með Val 1966, 1967,1976 og 1980 og bikarmeistari 1965, 1974 og 1976.  Hermann var kosinn Knattspyrnumaður ársins 1968 og hann lék í Austurríki með Eisenstadt 1969. Hermann þjálfaði og lék með liði ÍBA á Akureyri 1970 en sneri síðan aftur í Val. 

Hermann Gunnarsson var afar marksækinn leikmaður og hann skoraði 93 mörk í efstu deild Íslandsmótsins á ferli sínum. Hann varð þrisvar markakóngur 1967 (11 mörk), 1970 (14) og 1973 (17). Hermann lék 20 A landsleiki á árunum 1966 - 1973 og skoraði í þeim 6 mörk. 

Við kveðjum einn besta talsmann knattspyrnunnar og góðan félaga með söknuði en minningin um Hemma Gunn mun lifa. Við sendum ættingjum og vinum Hermanns innilegar samúðarkveðjur.

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ
Pistlar
Aðildarfélög
Aðildarfélög