Pistlar
Geir Þorsteinsson

Velkomin til leiks

29.4.2013

Íslandsmótið í knattspyrnu fer fram um land allt þetta sumar eins og verið hefur um áratuga skeið. Næstu 5 mánuði fara fram þúsundir leikja á vegum KSÍ. Það er mikill metnaður lagður í skipulag og undirbúning þessara leikja. Framfarir verða á ári hverju í aðstöðu knattspyrnufólks og nýir vellir eru vígðir. Nýir þátttakendur ganga til leiks og nýjar stjörnur verða til. Það er nefnilega svo að íslensk knattspyrna er öflug uppspretta leikmanna sem gera það gott bæði hér á landi og erlendis. Þetta er auðvitað besti vitnisburðurinn um öflugt uppbyggingarstarf aðildarfélaga KSÍ.

Ávallt er leikið til sigurs og meistarar eru krýndir að hausti. En það er líka góður árangur að ná góðum tökum á íþróttinni, bæta sig og hafa ávallt rétt við í keppni. Framkoma leikmanna og þjálfara er líka mælikvarði á okkar starf. KSÍ tekur á þessu ári þátt í átakinu – Í þínum sporum / Stöndum saman gegn einelti. Það er mikilvægt að knattspyrnuhreyfingin vinni af alefli gegn einelti innan sinna raða og hvers kyns fordómum.

Áfram bera efstu deildir karla og kvenna nafn Pepsi. Samstarfið við Ölgerðina hefur verið einkar gott og farsælt og rétt er að nota tækifærið og óska Ölgerðinni til hamingju með aldarafmælið. Það var ánægjulegt að Knattspyrnusamband Evrópu ákvað að verðlauna markaðssetningu Pepsi deildanna sl. haust. Sú viðurkenning lýsir vel metnaði Ölgerðarinnar í stuðningi fyrirtækisins við knattspyrnuhreyfinguna. Bikarkeppni KSÍ mun bera nafn Borgunar í sumar eins og sl. ár. Með góðum stuðningi Borgunar nýtur Bikarkeppni KSÍ enn meiri athygli.

Ég býð leikmenn, þjálfara og aðra starfsmenn keppnisliða, dómara, stuðningsmenn liða og fulltrúa fjölmiðla velkomna til leiks. Þakkir eiga skildar allur hinn mikli fjöldi sjálfboðaliða sem leggur mikið af mörkum til þess að halda knattspyrnustarfinu gangandi og annast m.a. framkvæmd leikja. Ég vil nota tækifærið í upphafi tímabils og þakka forystumönnum íslenskra knattspyrnufélaga mikið og óeigingjarnt starf.

Vonandi fjölmenna áhorfendur á vellina í sumar til að njóta góðrar knattspyrnu í fjölskylduvænni stemmingu. Velkomin til leiks og góða skemmtun.

Með knattspyrnukveðju,

Geir Þorsteinsson,

formaður KSÍ.
Pistlar
Aðildarfélög
Aðildarfélög