Pistlar
Jóhannes Ólafsson

Árangur okkar stráka í U21 landsliðinu

17.3.2010

 

Árangur strákanna okkar í U21 landsliðinu hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli upp á síðkastið og nær sú athygli langt út fyrir landsteinana.  Á síðasta leik liðsins gegn Þjóðverjum í Magdeburg, voru margir leikmenn til skoðunar og þó svo að leikmenn vanti í hópinn vegna meiðsla, þá eru aðrir leikmenn tilbúnir að nýta tækifærið þegar það gefst undir stjórn Eyjólfs Sverrissonar þjálfara og Tómasar Inga Tómassonar aðstoðarþjálfara.  Ekki má heldur gleyma þeim leikmönnum sem hafa þegar stimplað sig rækilega inn í A landsliðshópinn og eru þar lykilmenn.

Í leik þeirra gegn Þjóðverjum í mars síðastliðnum, létu strákarnir það ekkert á sig fá þótt þeir lentu tvisvar undir gegn ríkjandi Evrópumeisturum í þessum aldursflokki.  Þeir jöfnuðu jafnharðan og uppskáru verðskuldað stig í leikslok.  Mikil samheldni og vilji einkennir þennan hóp sem sýndi sig hvernig þeir gáfust aldrei upp í þessum leik.

Þetta stig heldur íslenska liðinu áfram inn í baráttunni um að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni sem fer fram í Danmörku á næsta ári.  Margir eru um tilkallaðir en fáir útvaldir því aðeins eru sjö laus sæti í úrslitakeppninni, það áttunda er heimamanna. 

Fyrirkomulag riðlakeppninnar er því þannig að sigurvegarar riðlanna 10 og þær fjórar þjóðir sem verða með bestan árangur í öðru sæti, tryggja sér umspilsleiki.  Þar verður dregið í sjö leiki á milli þessara fjórtán þjóða og leikið heima og heiman.

Það er því forvitnilegt að kíkja á stöðuna í riðli Íslands, 5. riðli, þó svo að ekki verði leikið í riðlinum aftur fyrr en 11. ágúst.  Tékkar hafa 15 stig eftir fimm leiki og eru því með fullt hús.  Ísland er með 13 stig eftir sex leiki og Þjóðverjar eru með 8 stig en eftir fimm leiki. 

Tékkar standa óneitanlega best að vígi, eiga eftir þrjá leiki og þá alla á heimavelli.  Íslendingar geta með sigri í þeim tveimur leikjum sem þeir eiga eftir, gegn Þjóðverjum heima og Tékkum úti, gert atlögu að toppsæti riðilsins og tryggt sér þannig öruggt sæti í umspili.  Þyrftu þá að treysta á að Þjóðverjar myndu leggja Tékka á útivelli. Ef jafntefli yrði í þeim leik mundi Ísland þurfa að vinna Tékka með a.m.k tveggja marka mun, óneitanlega á brattann að sækja í því verkefni en strákarnir hafa sýnt að þeir eru með drif á öllum..  Þjóðverjar eru vissulega með í baráttunni um annað sætið í riðlinum en fyrsta sætið er nánast úr myndinni hjá þeim.  Þarf allt þá að ganga upp hjá Þjóðverjum, m.a. að Tékkar tapi heima gegn San Marínó sem verður að teljast harla ólíklegt miðað við fyrri úrslit.  Vonir þeirra eru því að ná í annað sæti riðilsins af Íslendingum og er því lykilleikur þegar þessar þjóðir mætast hér á landi 11. ágúst.

Íslendingar hafa 13 stig í öðru sæti síns riðils, hafa „tapað“ 5 stigum.  Markatala Íslendinga er mjög góð en ekkert lið hefur skoraði jafnmikið í undankeppninni eins og íslenska liðið.  Íslendingar hafa 17 mörk í plús en markatala mun gilda ef þjóðir sem eru í öðru sæti eru jöfn að stigum.  Í riðlinum sjálfum gilda hinsvegar innbyrðis viðureignir ef þjóðir eru jafnar að stigum.

Ef við röðum þjóðunum, sem eru í öðru sæti riðlanna eins og staðan er núna, upp í töflu þá lítur hún svona út:

  1. Ísland               13 stig  +17 (2 leiki eftir)
  2. Skotland          13 stig +8 (2 leiki eftir)
  3. Rúmenía         12 stig +9 (3 leiki eftir)*
  4. Spánn              12 stig +8 (3 leiki eftir)
  5. Frakkland        11 stig +5 (3 leiki eftir)
  6. England           11 stig +4 (2 leiki eftir)
  7. Svíþjóð             10 stig +7 (4 leiki eftir)
  8. Ítalía                  10 stig +5 (2 leiki eftir)
  9. Slóvakía           10 stig +2 (3 leiki eftir)
  10. Tyrkland             7 stig  -2 (4 leiki eftir)*

*Í þessari töflu er búið að taka stigin af Rúmenum og Tyrkjum sem þau fengu gegn neðsta liðinu í riðli sínum.

Það má sjá á upptalningunni hér að ofan að þetta eru gríðarlega stórar knattspyrnuþjóðir sem eru í sömu sporum Íslendinga í þessari keppni og jafnvel nokkrum skrefum þar á eftir.  Þó svo að þetta sé aðeins til gamans gert og hægt er að velta fyrir sér stöðunni í riðlunum á margvíslegan hátt, þá er ljóst að árangur strákanna til þessa er frábær og treysta þeir á stuðning frá þjóðinni þegar þeir mæta Þjóðverjum hér á landi, miðvikudaginn 11. ágúst.

 

Með kveðju

Jóhannes Ólafsson

formaður landsliðsnefndar U21 karla
Pistlar
Aðildarfélög
Aðildarfélög