Mótamál
Heiðar Helguson

Heiðar Helguson útnefndur Íþróttamaður ársins 2011

Þetta er í 56. skiptið sem íþróttamaður ársins er útnefndur

5.1.2012

Knattspyrnumaðurinn Heiðar Helguson var í kvöld útnefndur Íþróttamaður ársins árið 2011 en það eru samtök íþróttafréttamanna sem velja.  Valið var tilkynnt í kvöld við athöfn að Grand Hótel en það eru ÍSÍ og Samtök íþróttafréttamanna sem stóðu sameiginlega að athöfninni.  Þetta er í 56. skiptið sem íþróttamaður ársins er tilnefndur.  Heiðar gat ekki verið viðstaddur athöfnina en móðir hans, Helga Matthíasdóttir, tók við verðlaununum fyrir hans hönd.
 

Þrír aðrir knattspyrnumenn voru á meða 10 efstu í kjöri á íþróttamanni ársins.  Sara Björk Gunnarsdóttir varð í fjórða sæti, Kolbeinn Sigþórsson varð fimmti og Þóra B. Helgadóttir varð í sjötta sæti.

Heiðar var einnig útnefndur knattspyrnumaður ársins 2011 af KSÍ snemma í desember og þá var þetta m.a. skrifað.

“Heiðar Helguson hefur átt góðu gengi að fagna með liði sínu QPR í ensku úrvalsdeildinni.  Hann var einn af lykilmönnum liðsins sem vann sannfærandi sigur í Championship deildinni,  skoraði 13 mörk á tímabilinu og var annar markahæsti leikmaður liðsins.  Heiðar gerði nýjan samning við félagið í sumar til eins árs.  Eftir að hafa komið fremur lítið við sögu í byrjun tímabils hefur Heiðar gripið tækifærið báðum höndum og er markahæsti leikmaður QPR með sex mörk.  Hann hefur skorað í fjórum heimaleikjum í röð og jafnað þar með félagsmet í úrvalsdeildinni.  Heiðar hefur samtals skorað 26 mörk í 87 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.

Heiðar lék þrjá landsleiki á árinu og eru landsleikirnir orðnir 55 talsins og mörkin tólf.”

Knattspyrnusambandið óskar Heiðari innilega til hamingju með útnefninguna.
Mótamál
Aðildarfélög


Skráning úrslita

Leiðbeiningar Úrslit leikja í öllum flokkum má skrá með SMS-skeyti eða í gegnum aðgang viðkomandi félags að ksi.is í gegnum Séraðgerðir hér að ofan
Aðildarfélög