Mótamál
Auðun Helgason og Kári Ársælsson, fyrirliðar Fram og Breiðabliks, með sigurlaunin á milli sín

Fram - Breiðablik - Úrslitaleikur VISA bikars karla

Bjarni Fel spilaði fyrsta bikarúrslitaleikinn og lýsir þeim fimmtugasta

1.10.2009

Á laugardaginn mætast Fram og Breiðablik í úrslitaleik VISA bikars karla og hefst leikurinn kl. 14:00 á Laugardalsvelli.  Á blaðamannafundi sem haldinn var í hádeginu í dag kom í ljós að mikill þróttur er í leikmönnum beggja liða sem og stuðningsmönnum fyrir þennan stórleik.

MIðasala

Fram – Breiðablik

Laugardaginn 3. október kl. 14.00

17 ára og eldri kr. 1.500

VISA korthafar kr. 1.200

11-16 ára kr. 300

10 ára og yngri frítt

Miðasala á leikdag hefst á Laugardalsvelli kl. 12:00.

Völlurinn opnar kl. 13:15

Leið liðanna í úrslitaleikinn

Bæði Fram og Breiðablik hófu keppni í 32-liða úrslitum VISA-bikarsins í ár og mættu þá liðum úr 2. deild Íslandsmótsins.  Framarar fengu Njarðvíkinga í heimsókn og höfðu betur með tveimur mörkum gegn einu í hörkuleik á Laugardalsvellinum.  Breiðablik sótti lið Hvatar heim á Blönduós og hafði þar sigur með tveimur mörkum gegn engu.

Í 16-liða úrslitum léku bæði lið á heimavelli.  Blikar léku aftur gegn liði úr 2. deild og voru það liðsmenn Hattar sem heimsóttu þá grænklæddu í Kópavoginn.  Heimamenn reyndust of sterkir fyrir gestina og unnu 3-1 sigur en þurfti framlengingu til.  Framarar léku gegn Pepsi-deildar liði Grindavíkur og höfðu 1-0 sigur í hörkuleik, sannkölluðum bikarslag.

Aftur fengu Framarar heimaleik í 8-liða úrslitum og aftur léku þeir gegn Pepsi-deildarliði, Fylki, á meðan Breiðablik lék enn gegn liði úr neðri deild, að þessu sinni gegn nágrönnum sínum úr HK, sem áttu heimaleik á Kópavogsvelli.  Liðsmenn Fram héldu hreinu og náðu að skora tvö mörk gegn Fylki og komust þannig áfram í undanúrslitin.  Leikur HK og Breiðabliks var sannkallaður nágrannaslagur, hörkuleikur, sem lyktaði með 1-0 sigri Breiðabliks.

Báðir undanúrslitaleikirnir fóru fram á Laugardalsvelli eins og undanfarin ár og að þessu sinni voru öll liðin í undanúrslitum úr Pepsi-deildinni.  Framarar unnu eins 1-0 sigur á KR-ingum í hörkuleik þar sem varnir liðanna voru í aðalhlutverki, stál í stál.  Breiðablik lék gegn Keflavík í dramatískum leik, þar sem Blikarnir náðu tveggja marka forystu, Keflvíkingar náðu að jafna fyrir hlé, en Blikar skoruðu eina mark síðari hálfleiks.

Það var því ljóst að Fram og Breiðablik myndu mætast í úrslitaleik VISA-bikarsins 2009.

VISA-bikarinn 2009 er 50. bikarkeppni KSÍ

Bikarkeppni KSÍ var fyrst haldin árið 1960 og er VISA-bikarinn 2009 því 50. bikarkeppnin frá upphafi.  Fyrstu árin fór keppnin að mestu fram á haustin og jafnvel inn á vetrarmánuðina og var þá jafnan leikið á Melavellinum í Reykjavík.  Síðan árið 1975 hefur úrslitaleikurinn hins vegar farið fram á Laugardalsvelli.

KR-ingar voru sigursælir framan af og unnu þeir bikarinn fyrstu 5 árin og urðu í raun bikarmeistarar í 7 af fyrstu 8 skiptunum sem keppnin fór fram.  Alls hafa KR-ingar unnið bikarinn 11 sinnum, oftast allra félaga.  Næstir koma Valsmenn og Skagamenn með 9 bikarsigra og þá Framarar, sem eru í úrslitaleiknum í ár, með 7 bikarmeistaratitla.  Alls hafa Framarar leikið 16 sinnum til úrslita í bikarnum, en Breiðablik einu sinni, árið 1971, þegar liðið beið lægri hlut fyrir Víkingum.

Þess má geta að í fyrsta úrslitaleiknum léku KR og Fram og hafði KR þar sigur með tveimur mörkum gegn engu.  Þar var rauðbirkinn varnarjaxl í aðalhlutverki í varnarleik Vesturbæinga, Bjarni Felixsson að nafni.  Hann er enn fastur fyrir og mun vera með útvarpslýsingu á Rás 2 frá þessum 50. bikarúrslitaleik karla.

Frá blaðamannafundi fyrir úrslitaleik VISA bikars karla

Frá blaðamannafundi fyrir úrslitaleik VISA bikars karla

 
Mótamál
Aðildarfélög


Skráning úrslita

Leiðbeiningar Úrslit leikja í öllum flokkum má skrá með SMS-skeyti eða í gegnum aðgang viðkomandi félags að ksi.is í gegnum Séraðgerðir hér að ofan
Aðildarfélög