Mótamál
100 ára afmælismerki Fram

Fram er 100 ára í dag

Viðamikil hátíðarhöld í tilefni dagsins

1.5.2008

Í dag, fimmtudaginn 1. maí, er Knattspyrnufélagið Fram 100 ára en félagið stofnuðu nokkrir ungir drengir þann 1. maí 1908.  Viðamikil afmælisdagskrá er af þessu tilefni í dag en í gærkvöldi var haldinn hátíðarkvöldverður þar sem félagar voru heiðraðir.

Þrír nýir heiðursfélagar voru útnefndir af þessu tilefni hjá Frömurum og voru það Sigurður J. Svavarsson, Guðmundur Jónsson og Halldór B. Jónsson, fyrrverandi varaformaður KSÍ.  Félaginu bárust margar góðar gjafir og má geta þess að því var afhent til varðveislu verðlaunapeningur frá 1911 en þá sigraði Fram KR í knattspyrnuleik á Melavellinum.  Er þessi leikur talinn fyrsti opinberi knattspyrnuleikur á Íslandi en hann var haldinn í tengslum við hátíðarhöld í tilefni af aldarafmæli Jóns Sigurðssonar og voru það ungmennafélögin er stóðu fyrir hátíðinni.

Þrátt fyrir að félagið sé orðið 100 ára þá horfir það fyrst og fremst til framtíðar og á dögunum var undirritaður samningur á milli Fram og Reykjavíkurborgar um framtíðarfélagssvæði Fram í Úlfarsárdal.

Efnt er til viðamikillar afmælisdagskrár í dag fyrir alla fjölskylduna og má sjá nánar um þá dagskrá á heimasíðu Fram, www.fram.is.

Það má segja að lokahnykkur á afmælisdagskránni verði svo í kvöld þegar að Fram og Valur mætast í úrslitaleik Lengjubikarsins en leikið verður í Kórnum kl. 19:15.

Knattspyrnusamband Íslands sendir öllum Frömurum árnaðaróskir í tilefni af þessum merka áfanga.

 
Mótamál
Aðildarfélög


Skráning úrslita

Leiðbeiningar Úrslit leikja í öllum flokkum má skrá með SMS-skeyti eða í gegnum aðgang viðkomandi félags að ksi.is í gegnum Séraðgerðir hér að ofan
Aðildarfélög