Mótamál
FH fögnuðu sigri í VISA bikar karla árið 2007

FH VISA-bikarmeistari karla 2007

Sigruðu Fjölni í framlengdum úrslitaleik með tveimur mörkum gegn einu

6.10.2007

FH varð í dag VISA bikarmeistari karla eftir sigur á Fjölni í úrslitaleik.  Lokatölur urðu 2-1 og þurfti framlengingu til þess að knýja fram úrslit.  Staðan í hálfleik var 1-0 FH í vil.  Þetta er í fyrsta skiptið sem FH verður bikarmeistari karla í knattspyrnu.

Aðstæður voru ágætar þegar að Egill Már Markússon, sem dæmdi sinn síðasta leik, flautaði úrslitaleikinn á.  Völlurinn í góðu standi en þrátt fyrir sólskin, var dálítið kalt á vellinum.  Leikmenn og stuðningsmenn létu það hinsvegar ekki á sig fá og stuðningsmönnum FH hitnaði vel þegar að Matthías Guðmundsson kom þeim yfir á 16. mínútu.  Hafnfirðingar fengu opnari færi í fyrri hálfleiknum en Fjölnismenn gáfu lítið eftir.  Þetta var hinsvegar eina mark fyrri hálfleiks.

Fjölnismenn komu virkilega grimmir til leiks í síðari hálfleik og sóttu mun meira heldur í þeim fyrri.  Færin létu hinsvegar á sér standa og FH-ingar gáfu ekki mörg færi á sér í vörninni og voru hættulegir í skyndisóknum.  Þegar aðeins um fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma fengu Fjölnismenn vítaspyrnu.  Gunnar Már Guðmundsson tók spyrnuna og jafnaði metin.  Fáeinum mínútum síðar flautaði svo Egill Már Markússon til loka venjulegs leiktíma og leikmenn og stuðningsmenn söfnuðu krafti fyrir framlenginguna.

Framlengingin einkenndist af baráttu á vellinum og mikilli spennu á meðal 3.739 áhorfenda á Laugardalsvelli.  Á síðustu mínútu fyrri hálfleiks framlengingarinnar átti Tryggvi Guðmundsson sendingu fyrir mark Fjölnis og þar var Matthías Guðmundsson mættur og skoraði sitt annað mark í leiknum.  Fjölnismenn gáfust ekki upp og héldu baráttunni áfram í síðari hálfleiknum en FH ingar gáfu ekki færi á sér og fögnuðurinn var þeirra þegar Egill Már flautaði til leiksloka.

Það var svo Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálráðherra er afhenti Daða Lárussyni fyrirliða FH, VISA bikarinn að leik loknum við mikinn fögnuð Hafnfirðinga.Mótamál
Aðildarfélög


Skráning úrslita

Leiðbeiningar Úrslit leikja í öllum flokkum má skrá með SMS-skeyti eða í gegnum aðgang viðkomandi félags að ksi.is í gegnum Séraðgerðir hér að ofan
Aðildarfélög