Mótamál

Evrópudeildin fer af stað

Stjarnan, KR og Valur freista gæfunnar

28.6.2017

Evrópudeildin hefst á morgun, fimmtudag, aðeins 37 dögum eftir úrslitaleik Manchester United og Ajax. Þetta árið eru það Stjarnan, KR og Valur sem taka þátt í keppninni fyrir hönd Íslands.

Valur á leik gegn Ventspils frá Lettlandi og fer leikur morgundagsins fram á Ventspils-vellinum, í samnefndri borg. Valsmenn fara inn í leikinn á toppi Pepsi deildarinnar, meðan andstæðingar þeirra sitja í sjötta sæti af átta í Lettnesku úrvalsdeildinni. Flautað verður til leiks klukkan 15:00 að íslenskum tíma.

Stjarnan og KR byrja hins vegar sínar viðureignir heima á Íslandi. Stjarnan býður Shamrock Rovers frá Írlandi í heimsókn á Samsung-völlinn meðan SJK Seinajoki mætir á Alvogenvöllinn og leikur gegn KR. Þess má geta að FH sló SJK út í undankeppni Evrópudeildarinnar 2015, en Hafnfirðingar unnu báða leikina 1-0.

Shamrock Rovers er sem stendur í 4. sæti írsku úrvalsdeildarinnar og er taplaust í síðustu fjórum leikjum sínum. Liðið er sigursælasta félagslið Írlands og hefur unnið deildina þar 17 sinnum, síðast árið 2011. Shamrock var fyrsta lið í sögu Írlands til að komast í riðlakeppni Evrópu- eða Meistaradeildarinnar þegar það sló út Partizan Belgrade í umspili Evrópudeildarinnar árið 2011. Þess má geta að þetta er í annað sinn sem Shamrock mætir íslensku liði. Það mætti Fram í fyrstu umferð Evrópukeppni félagsliða tímabilið 1982/83. Írarnir unnu þá viðureign sannfærandi, 7-0 samanlagt. Hefst leikurinn klukkan 19:15.

Andstæðingar KR eru aðeins á sínu fjórða tímabili í finnsku úrvalsdeildinni, eftir að hafa komist upp í deild þeirra bestu árið 2013. Liðið kom þangað eins og stormsveipur og náði 2. sæti á sínu fyrsta ári og varð síðan meistari árið eftir, 2015. Í fyrra endaði SJK í 3. sæti ásamt því að vinna Finnska bikarinn. Liðinu hefur ekki vegnað eins vel á þessu tímabili og situr í 8. sæti af 12 mögulegum. Það er þó ljóst að andstæðingar KR eru sterkir. Hefst leikurinn klukkan 19:15.
Mótamál
Aðildarfélög


Skráning úrslita

Leiðbeiningar Úrslit leikja í öllum flokkum má skrá með SMS-skeyti eða í gegnum aðgang viðkomandi félags að ksi.is í gegnum Séraðgerðir hér að ofan
Aðildarfélög