Mótamál

Gylfi Þór og Sara Björk knattspyrnufólk ársins 2016

Knattspyrnufólk ársins útnefnt í 13. skiptið af KSÍ

16.12.2016

Leikmannaval KSÍ hefur valið Gylfa Þór Sigurðsson og Söru Björk Gunnarsdóttur knattspyrnufólk ársins 2016. Þetta er í 13. sinn sem knattspyrnufólk ársins er sérstaklega útnefnt af KSÍ og eru það fjölmargir aðilar, m.a. fyrrverandi landsliðsmenn, þjálfarar og forystumenn í knattspyrnuhreyfingunni, sem velja.

Veitt eru verðlaun fyrir þrjú efstu sætin hjá körlum og konum. Þau sem lentu í þremur efstu sætunum í leikmannavali KSÍ 2016 hjá körlum og konum eru eftirfarandi:

 

Knattspyrnumaður ársins

1. sæti

Gylfi Þór Sigurðsson var sem fyrr í stóru hlutverki hjá félagsliði sínu, Swansea, á árinu. Hann lék flesta leiki þess á síðasta keppnistímabili, skoraði 11 mörk og átti 4 stoðsendingar, þegar Swansea hafnaði í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Gylfi hefur leikið alla deildarleiki Swansea á yfirstandandi tímabili nema einn og skorað 5 mörk. Gylfi hefur verið lykilmaður í landsliði Íslands á árinu. Hann lék alls 8 leiki á árinu, skoraði í þeim 2 mörk og átti 3 stoðsendingar. Gylfi lék í öllum leikjum Íslands í lokakeppni EM í Frakklandi í sumar og var einn af mikilvægustu leikmönnum liðsins í mótinu.

2. sæti

Ragnar Sigurðsson lék í upphafi ársins með rússneska liðinu Krasnodar en færði sig um set eftir EM í sumar og leikur nú með enska liðinu Fulham. Ragnar kom við sögu í öllum leikjum A landsliðs karla á árinu. Auk þess að vera einn af lykilmönnum í vörn íslenska liðsins hefur Ragnar skorað tvö mörk á árinu, sigurmarkið gegn Finnum á Laugardalsvelli í undankeppni HM og eftirminnilegt mark gegn Englendingum á EM í Frakklandi í sumar.

3. sæti

Aron Einar Gunnarsson er fyrirliði A landsliðs karla og sannur leiðtogi liðsins innan vallar sem utan. Aron leikur með Cardiff, sem  hafnaði í 8. sæti í næst efstu deild á Englandi í vor. Aron var lykilmaður í íslenska landsliðinu á árinu þar sem hann myndaði geysisterkt miðjupar með Gylfa Þór Sigurðssyni. Aron Einar var kletturinn á miðju íslenska liðsins og upphafsmaður margra af sóknum þess.

 Knattspyrnukona ársins

1. sæti

Sara Björk Gunnarsdóttir hóf árið með sænska félaginu Rosengård, eins og fyrri ár.  Hún lék fyrstu 10 leikina með liðinu á tímabilinu þar sem félagið vann níu og gerði eitt jaftefli.  Hún skoraði mark Rosengård gegn Frankfurt í 8 liða úrslitum Meistaradeildar kvenna en þýska liðið hafði betur eftir vítakeppni.  Sara hafði vistaskipti á árinu og samdi við þýska stórlðið Wolfsburg sem er eitt af alsterkustu félagsliðum Evrópu og lék til úrslita í Meistaradeild kvenna í maí.  Sara var sem fyrr í lykilhlutverki hjá íslenska landsliðinu sem tryggði sér sæti í úrslitum EM með því að vinna sinn riðil.2. sæti

Harpa Þorsteinsdóttir varð markahæsti leikmaður undankeppni EM með 10 mörk í 6 leikjum og var í stóru hlutverki íslenska liðsins sem vann sinn riðil í undankeppni EM og tryggði sér þannig sæti í úrslitakeppni EM í Hollandi.  Harpa var einnig í lykilhlutverki hjá Stjörnunni sem varð Íslandsmeistari og var hún valin besti leikmaður tímabilsins.  Hún varð ennfremur markahæsti leikmaður tímabilsins með 20 mörk í 16 leikjum.


3. sæti

Dagný Brynjarsdóttir lék með bandaríska liðinu Portland Thorns á tímabilinu í hinni sterku NWSL deild.  Dagný var í stóru hlutverki í sínu liði og skoraði þar 5 mörk í 18 leikjum.  Portland varð í efsta sæti deildarinnar en féll nokkuð óvænt úr leik í undanúrslitum úrslitakeppninnar.  Dagný var sem fyrr í stóru hlutverki hjá íslenska landsliðinu og var næst markahæsti leikmaður liðsins í undankeppni EM með 7 mörk í 8 leikjum.
Mótamál
Aðildarfélög


Skráning úrslita

Leiðbeiningar Úrslit leikja í öllum flokkum má skrá með SMS-skeyti eða í gegnum aðgang viðkomandi félags að ksi.is í gegnum Séraðgerðir hér að ofan
Aðildarfélög