Mannvirki
Laugardalsvöllur

KSÍ semur við Borgarbrag

Áætlað er að frumniðurstöður liggi fyrir í byrjun desember 2015

9.9.2015

Frábær árangur kvenna- og karlalandsliða Íslands í knattspyrnu síðustu misseri hefur beint sjónum fjölmiðla og almennings að aðstöðu knattspyrnuhreyfingarinnar í Laugardal.

Á sama tíma og Knattspyrnusamband Íslands fagnar þeirri miklu umræðu sem hefur átt sér stað síðustu daga í tengslum við mögulega stækkun Laugardalsvallar  vill sambandið ítreka að verkefnið er á frumstigi og ótal spurningum enn ósvarað um hvort raunhæft sé að ráðast í verkefni af þessari stærðargráðu á Íslandi.

Sambandið vill einnig árétta að fjölmargir hagsmunaðilar eigi hlut að máli auk þess sem eignarhald vallarins er að stærstum hluta í höndum Reykjavíkurborgar. Eðli málsins samkvæmt verður ekki aðhafst í málinu nema með samþykki borgarinnar og að höfðu samráði við aðra hagsmunaaðila.

Í ljósi þess hve umfangsmikið og margflókið verkefnið er hefur KSÍ falið ráðgjafarfyrirtækinu Borgarbrag að leiða vinnu við gerð hagkvæmniskönnunar vegna hugsanlegrar uppbyggingar nýs leikvallar í Laugardal og verður Pétur Marteinsson, annar eiganda fyrirtækisins í forsvari fyrir verkefnið. Áætlað er að frumniðurstöður könnunarinnar liggi fyrir í byrjun desember 2015. 
Mannvirki
Aðildarfélög
Aðildarfélög