Mannvirki
Landsbankadeildin

Þróttur og Fjölnir leika á sínum heimavöllum í sumar

Stjórn KSÍ hefur samþykkt undanþágubeiðnir félaganna

4.4.2008

Stjórn KSÍ hefur samþykkt undanþágubeiðnir Þróttar og Fjölnis varðandi mannvirkjaforsendur leyfiskerfisins, þannig að þessi félög geta leikið á sínum heimavöllum í Landsbankadeild karla í sumar.  Fjölnir mun því leika á Fjölnisvelli í Grafarvogi og Þróttur á Valbjarnarvelli í Laugardal, að uppfylltum þeim skilyrðum að sett verði upp 500 sæti fyrir áhorfendur við vellina.

Leyfisráð úrskurðaði eftirfarandi á fundi sínum 19. mars síðastliðinn, og átti sá úrskurður við bæði þessi félög:

Félagið uppfyllir allar A-forsendur leyfiskerfisins í öðrum þáttum en þeim sem snúa að mannvirkjamálum.  Aðalleikvangur félagsins, skv. þátttökutilkynningu í Íslandsmót, uppfyllir ekki mannvirkjakröfur leyfiskerfisins, hvað varðar áhorfendaaðstöðu, en varavöllur félagsins, skv. þátttökutilkynningu, uppfyllir kröfurnar.  Af þessum sökum getur leyfisráð aðeins samþykkt leyfisumsóknina m.v. að varavöllur félagsins verði notaður sem keppnisvöllur félagsins á Íslandsmóti.  Félaginu er hins vegar bent á að leita til stjórnar KSÍ varðandi undanþágu vegna málsins, sbr. samþykkt mannvirkjanefndar KSÍ á keppnisleyfi fyrir aðalleikvanginn.  Félaginu er bent á að næsti fundur stjórnar KSÍ er fimmtudaginn 3. apríl. 

Stjórn KSÍ tók undanþágubeiðnir félaganna tveggja fyrir á fundi sínum 3. apríl og samþykkti þær, með fyrrgreindum fyrirvara.
Mannvirki
Aðildarfélög
Aðildarfélög