Lög og reglugerðir
Knattspyrnusamband Íslands

Breytingar á reglugerðum KSÍ - Samþykktar af stjórn KSÍ 22. janúar

Breytingar á nokkrum reglugerðum KSÍ

28.1.2013

Á fundi stjórnar KSÍ 22. janúar sl. voru gerðar breytingar eftirfarandi breytingar á reglugerðum KSÍ:

Reglugerð KSÍ um aga – og úrskurðarmál, hagræðing úrslita – ný grein.

15. grein – Óeðlileg áhrif á úrslit leiks

15.1.    Hver sem tengist, eða rökstuddur grunur er um að tengist, beint eða óbeint, ráðagerð um óeðlileg afskipti af úrslitum leikja með þeim hætti að ekki samræmist íþróttamannslegum leikreglum skal sæta viðurlögum  sbr. grein 15.3.

15.2.    Í tilvikum þar sem leikmaður, forsvarsmaður félags, starfsmaður leiks eða félags tekur þátt í atferli í samræmi við grein 15.1. er heimilt að beita  viðkomandi viðurlögum  sbr. grein 15.3.

15.3.    Viðurlög  vegna brota í samræmi við greinar 15.1. og 15.2. skal ákvarðast á grundvelli alvarleika máls og felast í eftirfarandi:

- Leikbanni, tímabundnu eða ótímabundnu

- Tímabundnu eða ótímabundnu banni frá allri knattspyrnulegri starfsemi

- Í alvarlegum tilfellum skal útiloka viðkomandi frá allri þátttöku í knattspyrnu eða

knattspyrnumálum ævilangt

-Í alvarlegum tilfellum er heimilt að draga eitt stig eða fleiri af aðildarfélagi í

deildakeppni, fella  um deild eða vísa  félagi úr keppni.

Breytingin tekur þegar gildi.

 

Reglugerð KSÍ um knattspyrnumót, ný ákvæði í grein 4 og grein 17. 

4.3.      Félögum, iðkendum, forystumönnum og öðrum er með öllu óheimilt, beint eða óbeint, að taka þátt í ráðagerð um óeðlileg afskipti af úrslitum leikja með þeim hætti að ekki samræmist íþróttamannslegum leikreglum.

4.4.      Leikmanni, forsvarsmanni félags eða starfsmanni leiks eða félags sem leitað er til af aðila sem hefur í hyggju að hafa óeðlileg afskipti af úrslitum leikja með aðstoð framangreindra aðila ber skylda til þess að tilkynna slíkt tafarlaust til skrifstofu KSÍ.

17.2.    KSÍ getur lagt bann við að kappleikur fari fram, ef sýnt þykir eða rökstuddur grunur er um, að ekki verði farið eftir gildandi reglum.

Breytingin tekur þegar gildi.

 

Reglugerð KSÍ um menntun knattspyrnuþjálfara.

1.                  Almenn ákvæði

1.1.            Allir þjálfarar skulu hafa fullnægjandi og viðeigandi menntun til þeirra þjálfarastarfa sem þeir vinna.

1.2.            Skilgreining á hlutverki aðalþjálfara:  Aðalþjálfari skipuleggur og stjórnar æfingum flokksins sem hann þjálfar og er viðstaddur leiki liðsins.  Hann er ábyrgur fyrir knattspyrnulegri stjórnun flokksins og ber faglega ábyrgð á starfi og árangri hans.

2.                  Menntunarkröfur

2.1.            Félög skulu gera kröfur til þjálfara sinna um menntun samkvæmt eftirfarandi:

Þjálfun Aðalþjálfari Aðstoðarþjálfari   Markmannsþjálfari
Pepsi-deild karla, 1. deild karla og Pepsi-deild kvenna

UEFA Pro gráða eða

KSÍ A gráða

KSÍ B gráða   Markmannsþjálfaragráða KSÍ
2. deild karla, 3. deild karla, 1. deild kvenna og  2. flokkur KSÍ B gráða  og KSÍ V námskeið að auki KSÍ B gráða   Markmannsþjálfaragráða KSÍ eða KSÍ B gráða
Yfirþjálfari unglingastarfs

KSÍ A gráða

 

     
3. og 4. flokkur KSÍ B gráða KSÍ II   KSÍ II
5. 6. 7. og 8. flokkur og flokkar þar sem eingöngu er keppni í 7 eða 5 manna liðum KSÍ II KSÍ I   KSÍ I

Að öðru leyti er reglugerðin óbreytt.

Breytingar og greinargerð:

Fyrra ákvæði um menntun yfirþjálfara unglingastarfs í Pepsideild karla, 1.deild karla og 1.deild kvenna er breytt yfir í að ná nú yfir alla yfirþjálfara unglingastarfs.

Aðstoðarþjálfarar í 2.deild karla, 3.deild karla, 1.deild kvenna og í 2.flokki þurfa að hafa lokið KSÍ B gráðu í stað þess að áður var krafan að fa lokið við KSÍ II námskeið.

Markmannsþjálfarar meistaraflokks í Pepsideild karla, 1.deild karla og í Pepsideild kvenna skulu hafa lokið við markmannsþjálfaragráðu KSÍ í stað þess að í núverandi reglugerð þurfa þeir ekki að hafa lokið við neina menntun.

Markmannsþjálfarar meistaraflokks í 2.deild karla, 3.deild karla, 1.deild kvenna og í 2.flokki skulu hafa lokið við markmannsþjálfaragráðu KSÍ eða KSÍ B gráðu í stað þess að í núverandi reglugerð þurfa þeir ekki að hafa lokið við neina menntun.

Kröfur um menntun markmannsþjálfara í 3.flokk og yngri verða þær sömu og gerðar eru til menntunar aðstoðarþjálfara í þeim flokkum í stað þess að í núverandi reglugerð þurfa markmannsþjálfarar þessara flokka ekki að hafa lokið við neina menntun.

Bætt er inn í reglugerðina kröfum um menntun allra þjálfara sem þjálfa í 5 manna bolta en sömu kröfur eru gerðar þar og til þjálfara í 7 manna bolta.

Þróunin hefur orðið sú að fleiri félög heldur en í efstu deildum eru með starfandi yfirþjálfara. Eðlilegt er að reglugerðin nái líka yfir menntun þeirra.  Jafnframt er eðlilegt að gerðar séu kröfur til markmannsþjálfara sem sinna okkar bestu markvörðum á hæsta stigi knattspyrnunnar hér á landi og að þeir þjálfarar hafi til þess þá menntun sem KSÍ býður upp á fyrir markmannsþjálfara.  Sama á við um í yngri flokkum.

Reglugerðin tekur þegar gildi en aðildarfélögum er veittur frestur til aðlögunar til upphaf keppnistímabils 2014.    

Ef frekari upplýsinga er óskað þá vinsamlegast hafið samband við framkvæmdastjóra KSÍ, thorir@ksi.is.
Lög og reglugerðir
Aðildarfélög
Aðildarfélög