Lög og reglugerðir
Knattspyrnusamband Íslands

Breyting á reglugerð fyrir innanhússknattspyrnu

Ákvörðun stjórnar KSÍ frá 1. nóvember

3.11.2005

Samkvæmt 19. grein laga Knattspyrnusambandsins samþykkti stjórn KSÍ á fundi sínum 1. nóvember breytingar á keppnisfyrirkomulagi í meistaraflokki kvenna innanhúss og taka breytingarnar strax gildi.

Með breytingunni er verið að opna á þann möguleika að fjölga deildum kvenna úr tveimur í þrjár.  Einnig að miðað sé við að leikið sé í fjögurra liða riðlum í meistaraflokki kvenna.

Breyting á reglugerð KSÍ fyrir innanhússknattspyrnu

Grein 17 málsgrein C fellur niður og nýr C-liður kemur í staðinn:

Í Íslandsmóti meistaraflokks kvenna skal skipa félögum í deildir eftir styrkleika. Skulu 10 félög leika í 1. deild og skal þeim skipað í tvo fimm liða riðla, A og B. Við niðurröðun í riðlana skal Mótanefnd taka mið af árangri liðanna í síðasta innanhússmóti, þannig að þeir verði sem jafnastir að styrkleika. Leika skal einfalda stigakeppni í riðlum og fara tvö efstu lið í hvorum riðli í úrslitakeppni, þar sem leikið er til þrautar í hverjum leik. Fyrst leika A1-B2 og B1-A2 í undanúrslitum og síðan leika sigurvegarar þeirra leikja til úrslita. Lið sem verða neðst í riðlum falla í 2. deild að ári. Önnur félög skulu leika í 2. deild og skal þeim skipt í riðla eftir fjölda þeirra félaga sem tilkynna þátttöku. Mótanefnd ákveður hverju sinni með hvaða hætti keppt er til úrslita um tvö sæti í 1. deild að ári.

Í Íslandsmóti meistaraflokks kvenna skal skipa félögum í deildir eftir styrkleika. Skulu 8 félög leika í hverri deild, eftir því sem við verður komið. Í hverri deild skal skipa liðunum í tvo fjögurra liða riðla og leika liðin í þeim innbyrðis einfalda stigakeppni. Við niðurröðun í riðlana skal Mótanefnd taka mið af árangri liðanna í síðasta innanhússmóti, þannig að þeir verði sem jafnastir að styrkleika. Sigurvegarar riðla, annarra en í 1. deild, leika í næstu deild fyrir ofan að ári, en lið, sem verða neðst í riðlum, leika í næstu deild fyrir neðan að ári. Tvö efstu lið úr hvorum riðli (A og B) í 1. deild vinna sér sæti í úrslitakeppni, þar sem leikið er til þrautar í hverjum leik. Fyrst leika A1-B2 og B1-A2 í undanúrslitum og síðan leika sigurvegarar þeirra leikja til úrslita. 

Samþykkt af stjórn KSÍ 1. nóvember 2005

 
Lög og reglugerðir
Aðildarfélög
Aðildarfélög