Leyfiskerfi
Sportmyndir_30P7072

Uppfyllir nýr þjálfari kröfur um menntun?

Rétt að hafa í huga hvaða kröfur eru gerðar um menntun

22.8.2012

Félög sem undirgangast leyfiskerfi KSÍ (efstu tvær deildir karla) þurfa að hafa þær kröfur sem eru gerðar vandlega í huga við ráðningu nýrra þjálfara til að forðast það að sæta viðurlögum.  Nú þegar haustið nálgast með tilheyrandi breytingum á þjálfurum yngri flokka er rétt að gefa þessu gaum.

Þær kröfur sem eru gerðar eru listaðar hér að neðan í úrdrætti úr leyfisreglugerð KSÍ.

Grein 36 – Aðalþjálfari meistaraflokks

36.1   Leyfisumsækjandi verður að hafa skipað aðalþjálfara sem er ábyrgur fyrir knattspyrnulegri stjórnun meistaraflokks félagsins.  Hann ber faglega ábyrgð á starfi og árangri flokksins.

36.2   Hann verður a.m.k. að uppfylla eina af eftirfarandi lágmarkskröfum um menntun:

a) KSÍ A (UEFA A) þjálfaragráðu (æðsta þjálfaragráða KSÍ), eða

b) Þjálfaragráðu sem metin er sem sambærileg við KSÍ A (og viðurkennd af UEFA sem slík).

Grein 37 – Aðstoðarþjálfari meistaraflokks

37.1   Leyfisumsækjandi í efstu deild karla verður að hafa skipað aðstoðarþjálfara meistaraflokks sem er aðalþjálfara til aðstoðar við knattspyrnulega stjórnun keppnisliðs félagsins.

37.2   Hann verður a.m.k. að uppfylla eina af eftirfarandi lágmarkskröfum um menntun:

a)  KSÍ B (UEFA B) þjálfaragráðu, eða

b) Þjálfaragráðu sem metin er sem sambærileg við KSÍ B (og viðurkennd af UEFA sem slík).

Grein 38 – Yfirþjálfari unglingastarfs

38.1   Leyfisumsækjandi skal hafa skipað yfirþjálfara unglingastarfs, sem er ábyrgur fyrir knattspyrnulegu uppeldi í yngri flokkum félagsins, m.a. daglegum rekstri þess og tæknihliðinni.

38.2   Hann verður a.m.k. að uppfylla eina af eftirfarandi lágmarkskröfum um menntun:

a) vera með a.m.k. KSÍ A (UEFA A) þjálfaragráðu, eða

b) Þjálfaragráðu sem metin er sem sambærileg við KSÍ A (og viðurkennd af UEFA sem slík).

Grein 39 – Unglingaþjálfarar

39.1   Leyfisumsækjandi verður að hafa minnst einn þjálfara fyrir hvern aldursflokk 12 ára og eldri hjá félaginu, þ.e. 2., 3. og 4. flokk, sem hefur KSÍ B (UEFA B) þjálfaragráðu, og er ábyrgur fyrir flokknum og knattspyrnulegu uppeldi í honum.  Þjálfari 2. flokks skal að auki hafa lokið stigi KSÍ V.   Aðrir þjálfarar sem fást við þjálfun þessara flokka skulu a.m.k. hafa lokið stigi KSÍ II.

39.2   Þá verður félagið að hafa minnst einn þjálfara fyrir hvern aldursflokk yngri iðkenda en 12 ára, þ.e. 5. og 6.  flokk.  Þjálfarar í 5. og 6. flokki skulu a.m.k. hafa lokið stigi KSÍ II.  Aðrir þjálfarar sem fást við þjálfun þessara flokka skulu a.m.k. hafa lokið stigi KSÍ I.

39.3   Almennt er ekki gert ráð fyrir að sami þjálfari geti verið ábyrgur fyrir meira en tveimur aldursflokkum.

 
Leyfiskerfi
Aðildarfélög
Aðildarfélög