Landslið
Við erum öll í íslenska landsliðinu!

Draumaleikur á Deepdale

Íslenskur U21 sigur gegn Englendingum

28.3.2011

Strákarnir okkar í U21 landsliði karla unnu í kvöld góðan 2-1 sigur á Englendingum í vináttulandsleik sem fram fór á Deepdale-leikvanginum, heimavelli Preston North End.  Íslenska liðið lék vel í leiknum og er þessi sigur auðvitað gott veganesti fyrir liðið, sem leikur í úrslitakeppni EM í Danmörku í sumar.

Fyrri hálfleikur var í rólegri kantinum og lítið um færi, og segja má að bæði lið hafi náð að skora úr sínum einu raunverulegu færum.  Englendingar voru fyrri til snemma leiks þegar Nathan Delfouneso komst einn í gegn, en Íslendingar jöfnuðu metin þegar nokkrar mínútur voru eftir af hálfleiknum.  Þar var að verki Arnór Smárason, eftir góða stungusendingu frá Alfreð Finnbogasyni, sem átti góðan leik og ógnaði stöðugt.

Síðari hálfleikur var nokkuð fjörugur, Englendingar meira með boltann en okkar strákar skæðir í skyndisóknum.  Eftir eina slíka komst Björn Bergmann Sigurðarson í gegn, en markvörður enska liðsins varði skot hans í horn.  Hólmar Örn Eyjólfsson sneiddi hornspyrnu Arnórs Smárasonar glæsilega í hornið fjær, stöngin inn, og Ísland komið í forystu.  Þetta reyndist sigurmark leiksins.

Frammistaða Íslands var til mikillar fyrirmyndar.  Sú tugga um að þetta U21 lið sé skipað mörgum afar efnilegum leikmönnum verður ekki oftuggin, en það er rétt að hafa í huga strákarnir geta óhræddir mætt hvaða lið sem er í þessum aldursflokki. 

EM 2011, hér komum við!


Mót landsliða




Landslið




Aðildarfélög




Aðildarfélög