Landslið
Marki Margrétar Láru gegn Frökkum fagnað af innlifun

Mikilvægur sigur á Serbum

Íslensku stelpurnar sigruðu með fjórum mörkum gegn engu

28.5.2008

Íslenska kvennalandsliðið lagði það serbneska í dag með fjórum mörkum gegn engu.  Mikill hiti setti mark sitt á leikinn en um 37 stig voru á leikvellinum á meðan leikurinn fór fram.  Engu að síður byrjuðu íslensku stelpurnar af krafti og komust yfir eftir fjórar mínútur með marki Margrétar Láru Viðarsdóttur.

Þannig var staðan í hálfleik og byrjun seinni hálfleiks var svipuð og í fyrri hálfleiknum því að Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði eftir aðeins tvær mínútur í síðari hálfleik.  Margrét Lára og Katrín Ómarsdóttir bætt svo við mörkum og mikilvægur sigur staðreynd.  Margrét Lára hefur nú skorað 37 mörk í 41 landsleik.

Íslenska liðið hefur nú hlotið 12 stig eftir fimm leiki og er í öðru sæti riðilsins, með markatöluna 14 - 2.  Frakkar eru efstir með 18 stig eftir 7 leiki.

Næstu leikir íslensku stelpnanna eru gegn Slóveníu, laugardaginn 21. júní kl. 14:00 og aftur fimmtudaginn 26. júní kl. 16:30 við Grikki.  Lokaleikurinn er svo gegn Frökkum ytra, laugardaginn 27. september.

Hér að neðan má sjá textalýsingu er birt var á heimasíðunni á meðan leik stóð.

Serbía - Ísland

0-1  Margrét Lára Viðarsdóttir hefur komið Íslandi yfir strax á 4. mínútu.  Guðrún Sóley Gunnarsdóttir átti sendingu út á kantinn á Hólmfríði Magnúsdóttur.  Hún kom boltanum fyrir markið þar sem Margrét Lára Viðarsdóttir tók boltann niður af yfirvegun og kom honum í netið.  Frábær byrjun.

Eftir gríðarlega kraftmikla byrjun Íslendinga hefur aðeins dregið úr hraðanum en íslenska liðið stjórnar leiknum.  Margrét Lára kom boltanum í markið á 10. mínútu en það var dæmt af vegna rangstöðu.  Eitt gult spjald hefur litið dagsins ljós og það fengu Serbar á 12. mínútu. 

Enski dómarinn hefur flautað til hálfleiks og eru leikmennirnir hvíldinni fegnir enda ákaflega heitt í veðri.  Í uppbótartíma fyrri hálfleiks átti Dóra Stefánsdóttir gott skot sem hafnaði í þverslánni.  Íslenska liðið hefur stjórnað leiknum algjörlega og fengið ágætis tækifæri til að bæta við marki.  Serbar liggja aftarlega og sækja á fáum mönnum.

0-2  Sara Björk Gunnarsdóttir hefur komið Íslandi í tveggja marka forystu.  Hún fékk boltann rétt fyrir utan vítateig og skaut góðu skoti með vinstri fæti.  Boltinn hafnaði rétt við stöngina og fögnuðu íslenska liðsins mikill í hitanum.  Frábær byrjun á seinni hálfleik líkt og hinum fyrri.

0-3  Margrét Lára Viðarsdóttir hefur skorað þriðja mark Íslands á 67. mínútu.  Eftir misskilning í vörn Serba fékk Margrét Lára boltann fyrir opnu marki og renndi boltanum innfyrir marklínuna.  Strax á eftir gerði Sigurður Ragnar fyrstu breytinguna á liði sínu.  Sara Björk fór af velli og inn kom Katrín Ómarsdóttir.

0-4  Katrín Ómarsdóttir var ekki búin að vera lengi inn á þegar hún var búin að skora.  Markið kom eftir góðan undirbúning Hólmfríðar Magnúsdóttur.  Markið kom á 70. mínútu.  Á 76. mínútu var gerð önnur breyting á íslenska liðinu.  Dóra Stefánsdóttir fór útaf og inná kom Erla Steina Arnardóttir.  Skömmu síðar fengu Serbar skyndisókn og úr því kom besta færi þeirra til þessa í leiknum en skot þeirra fór framhjá.

Leiknum er lokið með 4-0 sigri íslenska liðsins.  Síðasta skiptingin kom á 84. mínútu þegar að Rakel Hönnudóttir kom inn á fyrir Hólmfríði Magnúsdóttur.  Erla Steina Arnardóttir fékk að líta gula spjaldið á 89. mínútu.  Íslenska liðið fékk ágætis tækifæri til að bæta við marki en það tókst ekki enda var orðið dregið af leikmönnum í hitanum.

 


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög