Landslið
Byrjunarlið Íslands fyrir vináttulandsleikinn gegn Finnlandi, 4. maí 2008.  Leiknum lauk með jaftefli, 1-1 og skoraði Edda Garðarsdóttir mark Íslands

Markalaust jafntefli í Finnlandi

Seinni vináttulandsleik Finnlands og Íslands lauk einnig með jafntefli

7.5.2008

Íslenska kvennalandsliðið gerði í dag markalaust jafntefli gegn Finnlandi í vináttulandsleik.  Leikið var í Lahti og var leikurinn seinni vináttulandsleikur þjóðanna en fyrri leiknum lauk einnig með jafntefli, 1-1.

Leikurinn byrjaði af krafti hjá íslenska liðinu og hafði það yfirhöndina á vellinum fyrsta stundarfjórðunginn.  Leikurinn jafnaðist eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn en hvorugu liðinu tókst að skapa sér opin marktækifæri.  Skiptust á skin og skúrir í veðrinu því stutt var á milli hellirigningar, er gerði völlinn þungan, og glaða sólskins sem birtist inn á milli.

Markalaust var í hálfleik og miðjubarátta var allsráðandi í seinni hálfleik og lítið sem ekkert um marktækifæri.  Undir lok leiksins tóku íslensku stelpurnar hinsvegar kipp og gerðu harða hríð að marki gestgjafanna.  Embla Grétarsdóttir komst næst því að skora þegar hún átti hörkuskot að marki sem markvörður Finna varði á undraverðan hátt í horn.  Stuttu síðar flautaði dómarinn til merkis um lok leiksins og markalaust jafntefli staðreynd.

Þessi tveir vináttulandsleikir eru lokaundirbúningur liðsins fyrir leikinn gegn Serbum sem fer fram ytra, 28. maí næstkomandi.  Sá leikur er í riðlakeppni fyrir EM 2009 en Ísland er í baráttunni um að komast í úrslitakeppnina, sem fer einmitt fram í Finnlandi.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög