Landslið
Strákarnir minntust fráfalls Ásgeirs Elíassonar eftir sigurleik gegn Norður Írlandi

Sætur sigur á Norður Írum

Sigurmarkið kom á 89. mínútu leiksins

12.9.2007

Íslendingar unnu í kvöld ákaflega sætan sigur á Norður Írum í riðlakeppni EM 2008.  Lokatölur urðu 2-1 Íslendingum í vil eftir að staðan hafði verið 1-0 í hálfleik fyrir Ísland.  Ármann Smári Björnsson skoraði mark Íslendinga í fyrri hálfleik en sigurmarkið var sjálfsmark Norður Íra.

Það er óhætt að segja að byrjunin hafi verið góð hjá Íslendingum í leiknum því eftir aðeins 6 mínútur voru þeir komnir yfir.  Ármann Smári Björnsson skoraði þá með þrumuskoti úr vítateignum eftir góðan undirbúning Gunnar Heiðars Þorvaldssonar.  Markið virtist slá gestina aðeins útaf laginu og Íslendingar voru sterkari aðilinn.  Smám saman jafnaðist leikurinn og Norður Írar komu betur inn í leikinn.  Hvorugu liðinu tókst að bæta við marki og Íslendingar gengu til búningsherbergja með eins marks forystu.

Norður Írar mættu í sóknarhug til seinni hálfleiks og gáfu tóninn með þrumuskoti í þverslá á 50. mínútu.  Þeir sóttu töluvert meira en Íslendingar gáfu fá færi og vörðust vel.  Íslendingar reyndu að beita skyndisóknum en tókst ekki að skapa sér færi úr þeim.  Pressa Norður Íra bar árangur á 70. mínútu þegar þeir fengu dæmda vítaspyrnu eftir að brotið var á David Healy.  Hann tók spyrnuna sjálfur og skoraði en Árni Gautur Arason var ekki langt frá því að verja.

Það leit svo allt út fyrir jafntefli en á 89. mínútu vann Ásgeir Gunnar Ásgeirsson boltann á vallarhelmingi Norður Íra, boltinn berst til Grétars Rafns Steinssonar sem gefur boltann fyrir markið.  Þar sótti Eiður Smári Guðjohnsen fast að Keith Gillespie og sá síðarnefndi sendi boltann í eigið mark.

Rússneski dómarinn bætti við þremur mínútum í uppbótartíma og þegar hann flautaði til leiksloka braust út gríðalegur fögnuður á meðal 7.727 áhorfenda á Laugardalsvellinum.  Leikmenn, þjálfarar og aðstandendur liðsins kunnu vel að meta frábæran stuðning áhorfenda og þökkuðu vel og lengi fyrir sig.  Stuðningur áhorfenda í leiknum var frábær og settu virkilega skemmtilegan svip á leikinn.

Góð þrjú stig í erfiðum leik staðreynd og næsti landsleikur Íslendinga í riðlinum er gegn Lettum á heimavelli, laugardaginn 13. október.

Riðillinn


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög