Landslið
Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði mark Íslands

Hólmfríður með þrennu gegn Portúgal í 5-1 sigri

Margrét Lára Viðarsdóttir orðin markahæst íslenskra landsliðskvenna

12.3.2007

Íslendingar unnu öruggan sigur á Portúgal í lokaleik C riðils á Algarve Cup.  Lokatölur urðu 5-1 eftir að staðan í hálfleik hafði verið 1-1.  Hólmfríður Magnúsdóttir gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í seinni hálfleik.  Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði sitt 23. landsliðsmark og er orðin markahæst frá upphafi.  Katrín Jónsdóttir fyrirliði lék sinn 60. landsleik í dag.

Íslenska liðið byrjaði af krafti og á sjöttu mínútu skoraði fyrirliðinn, Katrín Jónsdóttir í sínum sextugasta landsleik, gott skallamark eftir hornspyrnu.   Skömmu áður hafði Hólmfríður Magnúsdóttir átt skot í stöngina.  Portúgalska komst svo smám saman meira inn í leikinn og þær jöfnuðu leikinn á 35. mínútu með fallegu langskoti sem Þóra átti ekki möguleika að verja.  Jafnt í hálfleik og náðu íslensku stelpurnar ekki að fylgja eftir góðri byrjun og hleyptu heimastúlkum óþarflega mikið inn í leikinn að nýju.

Þetta var eitthvað sem íslenska liðið var harðákveðið að láta ekki gerast að nýju því þær mættu gríðarlega sterkar til leiks í seinni hálfleik og höfðu öll völd á vellinum.  Hólmfríður slapp ein innfyrir en markvörðurinn sá við henni á 48. mínútu og tveimur mínútum seinna átti Edda Garðarsdóttir hörkuskot úr aukaspyrnu sem söng í þverslánni.

Yfirburðirnir héldu áfram og á 58. mínútu átti Rakel Logadóttir góða sendingu fram, Margréti Láru var kippt niður en boltinn barst til Hólmfríðar sem að skoraði af yfirvegun.  Hún var svo aftur á ferðinni á 78. mínútu þegar hún lék á vörn Portúgala og markmanninn einnig og renndi boltanum í netið. 

Hólmfríður fullkomnaði svo þrennu sína í leiknum með glæsilegu skoti eftir frábæra sendingu frá Katrínu Ómarsdóttur.  Þetta gerði á 90. mínútu og þremur mínútum síðar komst Dóra María Lárusdóttir ein innfyrir en í stað þess að skjóta, renndi hún boltanum á Margréti Láru Viðarsdóttur sem að skoraði auðveldlega.  Örfáum sekúndum síðar flautaði indverski dómarinn til leiksloka og öruggur sigur staðreynd.

Þetta mark Margrétar gerir það að verkum að hún er orðin markahæst íslenskra landsliðskvenna frá upphafi.  Þetta var 23. mark hennar í 29 landsleikjum en Margrét Lára er aðeins tvítug.  Ásthildur Helgadóttir átti markametið áður, hefur skorað 22 mörk fyrir A landsliðið.

Í hinum leik riðilsins lögðu Ítalir Íra með fjórum mörkum gegn einu.  Ísland hafnar því í öðru sæti riðilsins á eftir Ítölum.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög