Landslið
Egilshöll

Tap gegn Englandi í Egilshöll

Enska liðið skoraði þrjú mörk í seinni hálfleik og tryggði sér sigur

24.11.2006

Annar vináttulandsleikur Íslands og Englands, U19 kvenna, fór fram í gærkvöldi í Egilshöll og lauk leiknum með sigri gestanna.  Eftir markalausan fyrri hálfleik, skoruðu ensku stúlkurnar þrjú mörk í seinni hálfleik og tryggðu sér sigur.

Enska liðið sótti töluvert í fyrri hálfleik en íslenska liðið varðist af krafti auk þess sem Ása Dögg Aðalsteinsdóttir, markvörður, varði oft frábærlega.  Staðan var því markalaus í hálfleik.  Í seinni hálfleik freistaðist íslenska liðið að koma framar á völlinn og ógnuðu marki gestanna töluvert.  Fanndís Friðriksdóttir fékk besta færið, þegar hún komst inn fyrir vörn Englendinga en skot hennar fór naumlega framhjá.

Upp úr miðjum seinni hálfleik komust svo Englendingar yfir með góðu marki og annað fylgdi fljótlega í kjölfarið.  Var róðurinn þá orðinn erfiður heimastúlkum sem börðust þó af krafti áfram.  Englendingar bættu svo við þriðja markinu seint í leiknum og lokatölur því 0-3.

Þessir vináttulandsleikir voru kærkomnir í undirbúningi U19 liðsins fyrir úrslitakeppni EM er fer fram hér á landi í júlí á næsta ári.  Mun íslenska liðið etja þar kappi við sterkustu þjóðir Evrópu í þessum aldursflokki.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög