Landslið
akvennahollandIMG_0362

100. A landsleikur kvenna

Leikið við Portúgal 18. júní nk.

1.6.2006

Þann 18. júní nk. leikur íslenska A landslið kvenna sinn 100. landsleik.  Leikið er við Portúgal í undankeppni fyrir HM 2007.  Fyrsti A landsleikur kvenna var leikinn 29. september 1981 í Skotlandi.

Var þá leikið við Skota í Kilmarnock og lauk leiknum með sigri Skota, 3-2.  Liðið sem spilaði fyrsta landsleikinn var skipað eftirtöldum leikmönnum: Guðríður Guðjónsdóttir markvörður Breiðabliki, Jónína Kristjánsdóttir Breiðabliki, Rósa Á. Valdimarsdóttir Breiðabliki  fyrirliði, Brynja Guðjónsdóttir Víkingi, Kristín Aðalsteinsdóttir Akranesi, Ragnheiður Víkingsdóttir Val, Ásta María Reynisdóttir Breiðabliki, Magnea H. Magnúsdóttir Breiðabliki , Sigrún Cora Barker Val, Bryndís Einarsdóttir Breiðabliki, Ásta B. Gunnlaugsdóttir Breiðabliki og Hildur Harðardóttir FH(kom inná).

Varamenn voru Ragnheiður Jónasdóttir Akranesi markvörður, Kristín Reynisdóttir Akranesi, Bryndís Valsdóttir Val og Svava Tryggvadóttir Breiðabliki.  Þjálfari í þessum fyrsta landsleik var Guðmundur Þórðarson.

Staðan í hálfleik var 1-0 Skotum í vil en stelpurnar komu ákveðnartil leiks í seinni hálfeik og komust yfir með mörkum frá Bryndísi Einarsdóttur og Ástu B. Gunnlaugsdóttur.  Það var svo alveg undir lokin að Skotarnir bættu við tveimur mörkum og tryggðu sér sigur.  Þess má geta að leiktíminn var 90 mínútur en á þessum tíma var leiktíminn styttri hér á landi í kvennaboltanum.

Af þessum leikmannahópi er Ásta B. Gunnlaugsdóttir leikjahæst en hún lék 26 landsleiki á tímabilinu 1981-1994.  Missti hún aðeins út tvo landsleiki á þessu tímabili, árið 1987, þegar hún var með barni.  Gekk hún þá með Gretu Mjöll Samúelsdóttur sem hefur verið í landsliðinu upp á síðkastið og gæti komið við sögu í þessum 100. landsleik.

KSÍ hefur ákveðið að bjóða öllum A landsliðskonum á leik Íslands og Portúgals.  Verið er að safna netföngum hjá fyrrverandi leikmönnum og eru þær beðnar um að senda netfang sitt á klara@ksi.is

Leikurinn verður leikinn 18. júní og hefst kl. 16:00.  Leikurinn verður sýndur beint á RUV.

Alidkv1981-0001

Mynd: Fyrsta kvennalandslið Íslands í Skotlandi 1981.

Aftari röð f.v. Gunnar Sigurðsson formaður kvennanefndar, Guðmundur Þórðarson þjálfari, Svanfríður Guðjónsdóttir úr kvennanefnd, Sigrún Cora Barker, Kristín Aðalsteinsdóttir, Jónína Kristjánsdóttir, Svava Tryggvadóttir, Magnea H. Magnúsdóttir, Kristín Reynisdóttir, Ragnheiður Jónasdóttir, Ellert B. Schram formaður KSÍ og Murdo MacDougall fyrrum þjálfari á Íslandi.

Fremri röð f.v. Brynja Guðjónsdóttir, Ásta María Reynisdóttir, Rósa Á. Valdimarsdóttir, Ásta B. Gunnlaugsdóttir, Bryndís Valsdóttir, Guðríður Guðjónsdóttir, Bryndís Einarsdóttir Hidlur Harðardóttir og Ragnheiður Víkingsdóttir.(Heimild: Knattspyrna í heila öld eftir Víði Sigurðsson og Sigurð Á Friðþjófsson)

Landsliðskonur frá upphafi


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög