Landslið

A karla - 3-0 tap gegn Mexíkó

24.3.2018

A landslið karla tapaði 3-0 gegn Mexíkó í San Fransisco, en leikið var á Levi's Stadium. Ísland skapaði sér fullt af færum og var óheppið að skora ekki.

68.917 þúsund manns mættu á leikinn, en það er þriðja hæsta aðsókn á knattspyrnuleik á Levi's stadium

Leikurinn var nokkuð jafn til að byrja með þar sem bæði liðin skiptust á að sækja. Fyrsta færi Íslands kom á 9. mínútu eftir langt innkast Arons Einars Gunnarssonar. Boltinn barst út fyrir teig þar sem Birkir Bjarnason náði góðu skoti sem var varið út í teig, en varnarmaður Mexíkó var á undan Birni Bergmann Sigurðarsyni í boltann. 

Leikurinn hélt áfram að vera jafn, en Ísland var líklegra ef eitthvað var til að skapa sér góð færi. Strákarnir sköpuðu sér tvö slík með stuttu millibili, það fyrra eftir hornspyrnu þar sem skapaðist mikil hætta fyrir framan mark Mexíkó. 

Seinna færið var öllu betra. Birkir Bjarnason átti góða fyrirgjöf sem endaði á fjærstöng, en þar var Jóhann Berg Guðmundsson en skot hans var varið vel. 

Mexíkó fékk fínasta færi þegar um hálftími var búinn af leiknum, en Rúnar Alex Rúnarsson varði vel skot Jesus Manuel Corona. 

Það var svo sjö mínútum síðar sem fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós. Mexíkó fékk þá aukaspyrnu rétt fyrir utan teig og Marco Fabian setti boltann frábærlega í netið. 

Undir lok fyrri hálfleiks fékk Emil Hallfreðsson gult spjald. 1-0 í hálfleik fyrir Mexíkó.

Ísland gerði þrjár skiptingar í hálfleik. Samúel Kári Friðjónsson, Hólmar Örn Eyjólfsson og Viðar Örn Kjartansson komu inn á, en útaf fór þeir Birkir Már Sævarsson, Aron Einar og Albert Guðmundsson.

Ari Freyr Skúlason fékk gult spjald í byrjun síðari hálfleiks, en hann stöðvaði þá sókn Mexíkó.

Fyrsta færi strákanna í síðari hálfleik leit dagsins ljós eftir aðeins sjö mínútur. Kári Árnason skallaði þá rétt framhjá eftir hornspyrnu.

Íslenska liðið átti góðan kafla næstu mínúturnar, en þó án þess að skapa sér opin færi. Tíu mínútum síðar átti Mexíkó skot yfir markið úr þröngu færi í vítateig Íslands.

Þremur mínútum síðar, á 66. mínútu, skoraði Miguel Layun annað mark Mexíkó þegar hann fékk boltann á auðum svæði í vítateignum. 2-0.

Stuttu eftir markið kom Rúrik Gíslason inn á fyrir Emil. Strákarnir hresstust fljótlega eftir markið og voru tvisvar nálægt því að skora. Fyrst var gott skot Ara Freys varið í horn, en upp úr horninu átti Sverrir Ingi Ingason skalla rétt yfir markið.

Ísland hélt áfram að setja góða pressu á vörn Mexíkó. Viðar Örn átti skot í stöng og stuttu síðar var mark Hólmars Arnar dæmt af vegna rangstæðu.

Síðustu skiptingar Íslands litu dagsins ljós þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum. Theodór Elmar Bjarnason og Kjartan Henry Finnbogason komu inn á, en útaf fóru Jóhann Berg og Björn Bergmann.

Leikurinn hélt áfram að vera nokkuð jafn og héldu bæði lið boltanum ágætlega. Þegar um sex mínútur voru til leiksloka fékk Birkir Bjarnason gult spjald og stuttu siðar fékk Sverrir einnig gult.

Mexíkó bætti síðan við einu marki undir lok leiksins, en það var Miguel Layun sem skoraði þá annað mark sitt.

Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög