Landslið

A kvenna - 6-5 sigur eftir vítaspyrnukeppni gegn Danmörku

7.3.2018

Ísland vann Danmörku 6-5 eftir vítaspyrnukeppni og tryggði sér með því 9. sætið á Algarve Cup. Það var Hlín Eiríksdóttir sem skoraði mark Íslands í venjulegum leiktíma.

Ísland byrjaði leikinn betur en Danir og áttu nokkrar álitlegar sóknir á fyrstu tíu mínútunum, en tókst ekki að skora þó Hlín hafi verið nálægt því.

Stelpurnar héldu áfram að vera sterkari aðilinn og Sara Björk Gunnarsdóttir átti skalla í stöng á 22. mínútu eftir hornspyrnu Hallberu Guðnýjar Gísladóttur. Tveimur mínútum síðar varði Sonný Lára Þráinsdóttir vel í marki Íslands.

Völlurinn var mjög þungur í leiknum, það rigndi mikið fyrir leik og á meðan leik stóð og augljóst að erfitt var að fóta sig í þessum aðstæðum.

Þegar um tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik voru stelpurnar tvisvar nálægt því að skora. Fyrst átti Hallbera aukaspyrnu utan af kanti sem Danir voru mjög nálægt því að skalla í eigið mark. Upp úr hornspyrnunni kom svo besta færi fyrri hálfleiks. Boltinn datt þá fyrir Katrínu Ásbjörnsdóttur, en gott skot hennar var varið á ótrúlegan hátt af markverði Dana.

Danir fengu eitt færi fyrir lok fyrri hálfleiks, en lítið annað markvert gerðist og staðan því markalaus í hálfleik.

Ísland gerði eina breytingu á liði sínum í hálfleik, en Sara Björk fór útaf og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir kom inn á í hennar stað.

Seinni hálfleikurinn var nokkuð jafn til að byrja með og það var á 56. mínútu sem Danir komust í gott færi en skot þeirra fór rétt framhjá.

Það var svo á 63. mínútu sem Danir komust yfir, en það var Sanne Troelsgaard sem skoraði með frábærum skalla.

Í kjölfarið fóru þær Glódís Perla Viggósdóttir, Katrín Ásbjörnsdóttir og Fanndís Friðriksdóttir útaf. Í þeirra stað komu þær Ingibjörg Sigurðardóttir, Rakel Hönnudóttir og Agla María Albertsdóttir.

Það tók stelpurnar ekki nema sjö mínútur að jafna leikinn. Þar var að verki Hlín Eiríksdóttir sem stangaði boltann í netið eftir hornspyrnu Hallberu. Frábært svar við marki Dana.

Aðeins tveimur mínútum síðar var Agla María nálægt því að koma Íslandi yfir en gott skot hennar var vel varið.

Í kjölfarið gerði Ísland tvær skiptingar. Anna Rakel Pétursdóttir og Sandra María Jessen komu inn á, útaf fóru Hallbera Guðný Gísladóttir og Hlín Eiríksdóttir.

Það kom aukinn kraftur í stelpurnar eftir markið. Sandra María komst í gott færi fljótlega eftir skiptingarnar en skot hennar var varið. Anna Björk Kristjánsdóttir var síðan nálægt því að koma boltanum í netið stuttu seinna.'

Ísland var mun betri aðilinn það sem eftir lifði leiks og Agla María var nálægt því að skora á 90. mínútu þegar hún komst ein í gegn, en skot hennar fór yfir.

Jafntefli staðreynd og því gripið til vítaspyrnukeppni þar sem Ísland hafði sigur. Ingibjörg, Rakel, Anna Björk, Agla María og Andrea Rán skoruðu allar af vítapunktinum. Sonný Lára varði þriðju spyrnu Dana. Því er 9. sætið staðreynd eftir frábæran leik Íslands.Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög