Landslið

A karla - Mikilvægur sigur gegn Króötum á Laugardalsvelli í kvöld

11.6.2017

A landslið karla vann mikilvægan sigur á Króötum í undankeppni HM 2018 á Laugardalsvelli í kvöld. Íslenska liðið hóf leikinn af miklum krafti og er varla hægt að segja að leikmenn liðsins hafi misst einbeitinguna svo nokkru skipti allan leikinn. Þrátt fyrir ágætis leik var lítið um færi í fyrri hálfleik og var staðan 0-0 þegar flautað var til hálfleiks. 

Baráttan hélt svo áfram í síðari hálfleik og var nokkuð jafnræði með liðunum þó Króatarnir væru nokkuð meira með boltann. Þeir áttu þó aðeins eitt færi í seinni hálfleik sem var líklegt til að rata í netið en Hannes Þór Halldórsson gerði vel í markinu og varði í horn. 

Enn einu sinni var dramatíkin allsráðandi á Laugardalsvelli þar sem eina mark leiksins kom á 90. mínútu. Þar var að verki Hörður Björgvin Magnússon sem "skallaði" boltann í markið með öxlinni eftir hornspyrnu og niðurstaðan var 1-0 sigur Íslands sem situr nú samhliða Króatíu í 1. - 2. sæti I riðils með 13 stig. 

Tveir aðrir leikir fóru fram í I riðli í kvöld og voru útisigrar í þeim báðum. Úkraína sigraði Finnland í Tampere 1-2 og Tyrkland hafði betur gegn Kósóvó 1-4 í Shkoder í Albaníu. 

Ísland er nú komið upp að hlið Króatíu í riðlinum með 13 stig en Króatar eru ofar í töflunni með betri markatölu. Tyrkland og Úkraína eru jöfn í 3. - 4. sæti með 11 stig og Finnland og Kósóvó eru jöfn í 5. - 6. sæti með 1 stig hvort lið. 

Mikið líf var í Laugardalnum í kringum leikinn í dag þar sem stuðningsmannasvæðið var gríðarlega vel sótt og var mikil og góð stemning meðal íslensku stuðningsmannana fyrir leik. Allt að 500 manns horfðu á leikinn á risaskjá á svæðinu og voru gestir allir til fyrirmyndar. 

Næsti leikur Íslands verður gegn Finnlandi í Tampere laugardaginn 2. september.

Staðan í I riðli undankeppni HM 2018Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög