Landslið

Stórleikur á Laugardalsvelli í dag

Leikurinn hefst kl. 18:45

11.6.2017

Þá er runninn upp leikdagur og allt að verða klárt á Laugardalsvelli fyrir stórleik Íslands og Króatíu í undankeppni HM 2018. Leikurinn sem hefst kl. 18:45 er gríðarlega mikilvægur fyrir bæði lið en með sigri getur Ísland komist upp að hlið Króata í efsta sæti riðilsins og þar með í væna stöðu fyrir lokahnykk undankeppninnar.

Mikið er lagt í undirbúning leiksins á öllum vígstöðvum. Leikmenn undir stjórn Heimis Hallgrímssonar hafa notað vikuna til að leggja upp leikinn og starfsmenn Laugardalsvallar hafa unnið dag og nótt við að gera völlinn sem glæsilegastan og skartar hann sínu fegursta á þessum fallega sunnudagsmorgni.

Starfsfólk KSÍ hefur lagt mikið í undirbúning leiksins og hefur nú í fyrsta skipti verið blásið til hátíðar á bílastæðinu fyrir framan Laugardalsvöll. Stuðningsmannasvæði eða „Fan Zone“ mun opna 2 klukkustundum fyrir leik en þar verður veitingasala, hoppukastalar fyrir börnin, andlitsmálun auk þess sem leikurinn sjálfur verður sýndur á risaskjá á svæðinu.

Fólk er hvatt til að mæta tímanlega í Laugardalinn í dag og njóta dagsins. Sérstaklega er minnt á að vegna viðburðarins eru bílastæði fyrir framan Laugardalsvöll lokuð í dag og er fólk hvatt til að nýta sér almenningssamgöngur sem eru með hefðbundnum hætti.

Sjáumst í Laugardalnum í dag.

ÁFRAM ÍSLAND!Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög