Landslið

EM 2016 - Ísland úr leik á EM eftir tap gegn heimamönnum

Ísland tapaði 2-5 gegn heimamönnum í Frakklandi

3.7.2016

Ísland er úr leik á EM eftir að komast í 8-liða úrslit mótsins. Franska liðið reyndist of stór biti til að kyngja og svo fór að Frakkar unnu leikinn 2-5 og eru komnir áfram í undanúrslit. Kolbeinn Sigþórsson og Birkir Bjarnason skoruðu mörk Íslands í leiknum.

Leikurinn var varla byrjaður þegar Frakkar komust yfir en það var á 11. mínútu að Olivier Diroud komst einn í gegn og skoraði örugglega framhjá Hannesi Þóri Halldórssyni. Ekki leið á löngu að forystan var 2-o en eftir horn sem Frakkar fengu reis Paul Pogba hæst og skallaði boltann í markið. Dimitri Payet skoraði svo á 42. mínútu leiksins með góðu skoti en þar með var dagskránni ekki lokið, Antoine Griezmann komst óvænt einn í gegnum vörn Íslands á 45. mínútu og vippaði hann boltanum af öryggi yfir Hannes í markinu. Staðan í hálfleik 4-0 fyrir heimamenn.

Ísland gerði tvöfalda skiptingu í hálfleik en Kári Árnason og Jón Daði Böðvarsson fóru af velli en Alfreð Finnbogason og Sverrir Ingi Ingason komu inn á. 

Kolbeinn Sigþórsson minnkaði muninn á 55. mínútu eftir laglega sendingu fyrir frá Gylfa Þór Sigurðssyni. Það var samt skammgóður vermir en í næstu sókn fengu Frakkar aukaspyrnu og Giroud stökk manna hæst í vítateignum og skallaði boltann í mark Íslands, 5-1. Birkir Bjarnason minnkaði muninn á 84. mínútu leiksins með laglegu marki sem gladdi þá 10 þúsund Íslendinga sem voru á vellinum. 

Niðurstaða leiksins var 5-2 tap gegn gríðarlega sterku liði Frakka sem eru komnir í undanúrslit. Stuðningur íslenskra áhorfenda var frábær á vellinum en allir þeir um 10 þúsund stuðningsmenn sem mættu í stúkuna sungu nánast sleitulaust og voru landi og þjóð til mikils sóma.

Frábær árangur á mótinu þrátt fyrir tap í kvöld og alls ekki amalegt að vera meðal 8 besta þjóða Evrópu. Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög