Landslið

EM 2016 - Ísland og Ungverjaland hafa mæst 10 sinnum

Ungverjar hafa unnið 7 af 10 leikjum liðanna

18.6.2016

Ísland og Ungverjaland hafa mæst 10 sinnum í gegnum tíðina. Ísland hefur unnið 3 leiki af þessum 10 en þeir sigrar komu allir á árunum 1992-1995. Fyrsti leikur liðanna var árið 1988 í vináttuleik og unnu Ungverjar leikinn 3-0.

Liðin mættust aftur í vináttuleik árið 1988 og þá unnu Ungverjar 3-0 en eftir það kom góður kafli hjá Íslandi sem skilaði þremur sigrum. 

Fyrsti leikurinn í sigurhrinu Íslands var árið 1992 í undankeppni fyrir HM en sá leikur endaði með 1-2 sigri Íslands. Þorvaldur Örlygsson skoraði annað mark Íslands en fréttamaðurinn góðkunni, Hörður Magnússon, skoraði hitt mark Íslands í leiknum. Árið 1993 vann Ísland 2-0 sigur á heimavelli en á voru það Eyjólfur Sverrisson, núverandi þjálfari U21 landsliðsins, og Arnór Guðjohnsen, faðir Eiðs Smára sem nú leikur með landsliðinu, sem skoruðu mörk Íslands. Það var svo árið 1995 sem seinasti sigur Íslands kom en það var í undankeppni EM þar sem Ísland vann 2-1 sigur með mörkum Guðna Bergssonar og Sigurðar Jónssonar. 

Síðan þá hefur Ísland ekki unnið Ungverjaland en flestir leikir liðanna hafa verið hin ágætasta skemmtun og t.a.m. hafa verið skoruð 14 mörk í seinustu þremur leikjum liðanna. Sá seinasta var vináttuleikur sem fór fram árið 2011 þar sem Ungverjaland vann 4-0 sigur. 

Sá leikmaður sem er væntanlega hvað þekktastur hjá Ungverjum er hinn litríki markmaður Gábor Király en kappinn er 40 ára gamall og vel kunnur fyrir að klæðast oftar en ekki jogging-buxum þegar hann stendur á milli stanganna.Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög