Landslið

Kolbeinn:  Mikilvægt að styrkja og þróa okkar leik

Kolbeinn Sigþórsson í viðtali við ksi.is í Varsjá

11.11.2015

A landslið karla er nú statt í Varsjá og undirbýr sig fyrir vináttuleik við Pólland, en liðin mætast á þjóðarleikvangi Pólverja á föstudag.  Fréttaritari ksi.is í Varsjá settist niður með Kolbeini Sigþórssyni og lagði fyrir hann nokkrar spurningar um leikinn við Pólland og um leikinn við Slóvaka, sem er fjórum dögum eftir fyrri leikinn.  Báðir leikirnir verða í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV

Vináttuleikir við Pólland og Slóvakíu framundan.  Hvaða væntingar hefurðu til þessara leikja? 

Miklar og góðar væntingar.  Við viljum ná sem bestum úrslitum og kannski aðallega vinna í því að stilla saman strengi okkar fyrir Evrópumótið.  Það er mikilvægt fyrir okkur að ná að spila vel og halda áfram að þróa og styrkja okkar leik.

Pólverjar hafa verið á mikilli siglingu í undankeppninni og skoruðu yfir 30 mörk.  Þeirra styrkur er væntanlega sóknarleikurinn, eða hvað?

Já, allt liðið virðist þó vera vel skipulagt og með góða leikmenn innanborðs í sókn og vörn.  Þetta verður verðugt verkefni að mæta þeim á þeirra heimavelli fyrir framan tæplega 60 þúsund manns.

Nokkrar breytingar á hópnum frá síðustu leikjum í undankeppninni, þar á meðal nokkrir nýliðar í hópnum, sem þó hafa allir leikið fyrir yngri landsliðin og hafa býsna mikla reynslu nú þegar.  Hversu mikilvægt er að hafa leikið með yngri landsliðum áður en skrefið er tekið upp í A-liðið?

Það er að mínu mati mjög mikilvægt að vera búinn að fá þá reynslu að spila fyrir þjóðina í yngri landsliðum, kynnast landsliðsumhverfinu sem er allt annað en að vera í félagsliði.  Það gerir skrefið upp í A landsliðið að mörgu leyti auðveldara.

Mótherjarnir í þessum tveimur vináttuleikjum eru kannski nokkuð ólíkir.  Nálgast menn þessa tvo leiki með ólíkum hætti?

Bæði og.  Vegna þess að við förum alltaf inn í okkar verkefni með okkar leikskipulag, svo reynum við að aðlaga okkur að leikstíl andstæðinganna hverju sinni, en aðaláherslan er þó á okkar leik.  Þannig verður það einig í þessum leikjum.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög