Landslið

U17 - Englendingar höfðu betur á Akranesi

Síðasti leikur Íslands gegn Spáni á sunnudaginn

25.6.2015

Íslensku stelpurnar í U17 léku í kvöld annan leik sinn í úrslitakeppni EM U17 kvenna.  Leikið var gegn Englandi á Akranesi og höfðu gestirnir betur, 1 - 3. 

Það var jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik og fengu íslensku stelpurnar 2 góð færi í fyrri hálfleiknum en tókst ekki að nýta þau.  Enska liðið komst hinsvegar yfir á 28. mínútu og gengu með það forskot til leikhlés í blíðunni á Akranesi.

Enska liðið bætti við öðru marki sínu eftir aðeins fjórar mínútur í síðari hálfleik en íslenska liðið lagði hinsvegar ekki árar í bát.  Á 66. mínútu tók fyrirliðinn, Amanda Mist Pálsdóttir, aukaspyrnu og skoraði með glæsilegur skoti efst í markhornið.  Ekki tókst íslenska liðinu að bæta við markareikninginn en þær ensku áttu síðasta orðið í leiknum á 76. mínútu með marki eftir hornspyrnu.

Annað tap Íslands á mótinu og ljóst að liðið kemst ekki í undanúrslitin að þessu sinni.  Baráttan er hinsvegar hörð í A-riðli en England og Spánn hafa fjögur stig en Þýskaland er með þrjú.  Tvær efstu þjóðirnar komast í undanúrslitin en í lokaumferðinni mætast Ísland og Spánn á Kópavogsvelli en Þýskaland og England leika á Fylkisvelli.  Báðir leikirnir fara fram sunnudaginn 28. júní kl. 19:00.

Frakkar númeri of stórar fyrir Noreg

Frakkar unnu annan sigur sinn á lokamóti U17 kvenna í kvöld en liðið vann 2-0 sigur á Noregi. Frakkar léku vel í leiknum og voru þegar upp var staðið líklega númeri of stórir fyrir norska liðið. 

Marie-Antoinette Katoto skoraði fyrra mark franska liðsins á 20. mínútu en Hélène Fercocq kom svo liðinu í 2-0 sem urðu lokatölur leiksins.

Frakkar eru með 6 stig í riðlinum en Noregur er með 1 stig. Noregur mætir Írum á sunnudaginn en Frakkar etja kappi við Sviss. Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög