Landslið

Algarve 2015 - 150 fjölmiðlamenn sækja mótið

Fjölmennur blaðamannafundur fór fram í dag

3.3.2015

Algarve mótið hefst á morgun en þá mætir íslenska liðið því svissneska en þjóðirnar leika í B riðli ásamt Noregi og Bandaríkjunum.  Mikill áhugi er á Algarve mótinu sem hefur aldrei verið sterkara en oft er talað um óopinbera heimsmeistarakeppni er þetta mót ber á góma. 

Alls hafa 150 fjölmiðlamenn boðað komu sína á mótið að þessu sinni og eru 14 af 18 leikjum riðlakeppninnar sýndir í beinni útsendingu.

Vel sóttur blaðamannafundur fór fram í dag þar sem þjálfarar allra þátttökuþjóðanna sátu fyrir svörum.  Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari Íslands, var að sjálfsögðu á meðal þeirra.  Aðspurður sagði Freyr meðal annars þetta mót vera byrjun á undirbúningi Íslands fyrir undankeppni EM en dregið verður í hana nú í april.  Allar aðrar þjóðir í riðli Íslands eru að undirbúa sig fyrir úrslitakeppni HM kvenna sem fram fer í Kanada og hefst 6. júní.  Freyr sagði þetta mót mjög spennandi fyrir íslenska liðið þar sem ákveðin endurnýjun væri nú á liðinu og allir leikirnir væru gegn gríðarlega sterkum mótherjum sem væri frábær reynsla fyrir hið unga íslenska lið.

Alls eru það 9 þjóðir af 12 hérna á Algarve sem leika á HM í sumar en einungis Danmörk, Ísland og heimastúlkur í Portúgal verða ekki þar í eldlínunni sem sýnir styrkleika mótsins.

Fyrsti leikur Íslands er gegn Sviss á morgun, miðvikudaginn 4. mars og hefst kl 15:00 að íslenskum tíma.  Fylgst verður með helstu atriðum leiksins á Facebook síðu KSÍ.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög