Landslið
Gylfi Þór Sigurðsson á æfingu í Riga

Íslenska liðið ætlar sér þrjú stig gegn Lettum

Lettland - Ísland á föstudag kl. 18:45

9.10.2014

Lars Lagerbäck, annar af þjálfurum A landsliðs karla, sat fyrir svörum á blaðamannafundi á liðshóteli íslenska liðsins í Riga, en Ísland og Lettland mætast í undankeppni EM 2016 á föstudagskvöld.  Fyrirliði íslenska liðsins, Aron Einar Gunnarsson, var einnig á fundinum og svaraði spurningum íslenskra og lettneskra fjölmiðlamanna.

Það var ljóst af spurningum lettneskra fjölmiðla að þeir telja íslenska liðið sterkara en það lettneska, sérstaklega í ljósi þess að í lið Letta vantar marga sterka leikmenn.

Lars var spurður hvort það hefði verið erfitt að ná mönnum niður á jörðina eftir flottan sigur á Tyrkjum og hvort hann héldi að menn myndu freistast til að horfa til næsta leiks eftir leikinn við Letta, þ.e. heimaleikinn við Holland á mánudag.  Svíinn geðþekki svaraði því til að svo væri ekki og hrósaði leikmönnum íslenska liðsins fyrir fagmennsku og yfirvegun í aðdraganda leikja.  Aron Einar tók undir orð Svíans og staðfesti að litið sem ekkert hefði verið fjallað um hollenska liðið á liðsfundum og að allur fókus væri á þessum næsta leik, við Letta í Riga.  Menn hefðu misstigið sig um svipað leyti í síðustu undankeppni (unnið Noreg heima og svo tapað fyrir Kýpur úti) og ætluðu ekki að endurtaka þann leik.  

Aðspurður um væntingarnar til leiksins við Lettland sagði fyrirliðinn að menn yrðu að fara varlega, því Lettar væru með sterkt lið og vel skipulagt, sem sýndi sig best í þeirri staðreynd að liðið hefur haldið hreinu í síðustu fjórum leikjum.  Einnig mætti ekki gleyma því að síðast þegar Ísland mætti Lettum í Riga hefðu heimamenn unnið 4-0 sigur.  Það breytti því þó ekki að íslenska liðið ætlaði sér þrjú stig í leiknum og ef það ætti að takast þyrftu menn að sýna þolinmæði og aga í sínum leik.  Hvort Aron myndi sækja meira sjálfur en í síðustu leikjum sagði hann að sitt hlutverk í liðinu væri fyrst og fremst að sjá til þess að liðið héldi jafnvægi milli varnar og sóknar, hann væri sjálfur aftar á vellinum til að leikmenn eins og Gylfi Þór Sigurðsson gæti sótt meira að marki andstæðinganna og skapað usla.

Þrátt fyrir að vera þráspurður um taktík og liðsskipan gaf Lars lítið uppi, en vildi þó ekki viðurkenna að íslenska liðið hefði mikið beitt löngum sendingum gegn Tyrkjum, eins og lettneskur sjónvarpsmaður vildi meina.  Hvort sendingarnar yrðu langar eða stuttar í leiknum, það yrði bara að koma í ljós.

Leikur Lettlands og Íslands er á föstudag og hefst kl. 18:45 að íslenskum tíma, í beinni útsendingu á RÚV.  


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög