Landslið
UEFA EM U19 kvenna

Átta marka sigur á Litháen

Algjörir yfirburðir hjá U19 kvenna

13.9.2014

U19 landslið kvenna vann í dag, laugardag, yfirburðasigur, 8-0, á Litháen í undankeppni EM, en riðillinn fer fram í Kaunas í Litháen.  Aðstæður voru frábærar, flottur völlur og 23 stiga hiti.  Íslenska liðið hafði sem fyrr segir mikla yfirburði og var komið með tveggja marka forystu eftir tólf mínútur.  Fyrst skoraði Ingibjörg Sigurðardóttir á 7. mínútu með skoti beint úr aukaspyrnu langt utan af velli.  Boltinn hafði viðkomu í varnarveggnum og breytti eilítið um stefnu, þannig að markvörður litháíska liðsins náði ekki að bregðast við.

Á 12. mínútu prjónaði Hulda Ósk Jónsdóttir sig í gegnum vörn heimaliðsins hægra megin í vítateignum og renndi knettinum út á Esther Rós Arnarsdóttr, sem skoraði af öryggi.   Þriðja markið skoraði svo Guðrún Karítas Sigurðardóttir á 23. mínútu, þegar hún lék vörn Litháens grátt áður en hún lagði knöttinn snyrtilega í markið.  Guðrún Karítas bætti við öðru marki sínu og fjórða marki Íslands þegar hún skoraði með skoti af stuttu færi í teignum á 54. mínútu.  Fimmta markið kom eftir hornspyrnu á 67. mínútu.  Þar var að verki Lillý Rut Hlynsdóttir sem þá var nýkomin inn á sem varamaður.  Aðeins tveimur mínútum síðar jók Ísland enn muninn þegar Guðrún Karítas fullkomnaði þrennuna, setti boltann í markið eftir klafs í teignum.  Sjöunda markið leit dagsins ljós á 84. mínútu og var þar að verki Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir, sem skoraði eftir sendingu frá Katrínu Rúnarsdóttir, sem hafði tekið við langri sendingu frá vinstri kanti.  Skömmu áður hafi Ísland átt tvö dauðafæri sem fóru forgörðum.  Mark númer átta skoraði Sigríður María Sigurðardóttir eftir frábæra sendingu frá Esther Rós Arnarsdóttur.

Á sama tíma vann Spánn einnig stórsigur á Króatíu í hinum leik riðilsins, 7-0 í ótrúlegum leik þar sem öll mörk Spánverja komu í fyrri hálfleik.  Næsta umferð fer fram á mánudag kl. 13:00 að íslenskum tíma og leikur þá Ísland gegn Spáni.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög