Landslið
Eiður Smári Guðjohnsen bætti markamet Ríharðs Jónssonar með því að skora tvö mörk gegn Lettum í október 2007

Eiður Smári, Grétar Rafn og Hallgrímur í landsliðshópinn

Björn Bergmann meiddur og verður ekki með

8.8.2012

Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á landsliðshópnum fyrir vináttulandsleikinn við frændur okkar Færeyinga, sem fram fer á Laugardalsvellinum á miðvikudag.  Eiður Smári Guðjohnsen, Grétar Rafn Steinsson og Hallgrímur Jónasson bætast við áður tilkynntan leikmannahóp, en Björn Bergmann Sigurðarson á við meiðsli að stríða og verður því ekki með.

Hallgrímur hefur glímt við meiðsli upp á síðkastið en hefur nú náð sér að fullu, lék í 45 mínútur í síðasta leik með félagsliði sínu, og er klár í slaginn gegn Færeyjum.

Um þessar breytingar hafði landsliðþjálfarinn Lars Lagerbäck þetta að segja:

Grétar og Eiður eru leikmenn með mikla reynslu, ef þeir eru lausir við meiðsli og í góðu formi eru þeir mikilvægir leikmenn fyrir Ísland.  Ég myndi vilja skoða þá báða betur í leiknum við Færeyjar, jafnvel þó þeir hafi ekki fundið sér ný félagslið fyrir þann tíma.  Grétar stóð sig vel í leiknum við Svartfjallaland og í þeim leikjum sem ég hef horft á úr síðustu undankeppni var Eiður á meðal bestu leikmanna liðsins.  Ég vil undirstrika að þeir eiga jafna möguleika og aðrir leikmenn á að komast í liðið.“

Lars reiknar ekki með fleiri breytingum á hópnum. Vonandi verða ekki fleiri breytingar og ég fagna mjög þessu tækifæri á að hitta svona stóran hóp leikmanna í lokaundirbúningi fyrir leikina í september.  Í heildina erum við þó að fylgjast með milli 35 og 40 leikmönnum sem eiga enn möguleika á að komast í íslenska landsliðið“. 

Undankeppni HM 2014 hefst með heimaleik við Noreg 7. september og útileik gegn Kýpur fjórum dögum síðar.

Vináttulandsleikur Íslands og Færeyja fer fram á Laugardalsvellinum á miðvikudag og hefst kl. 19:45.


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög