Landslið
U19kv-Byrjunarlid-gegn-Hollandi´12

U19 kvenna - Jafntefli gegn Hollandi í fyrsta leik

Leikið við Rúmena á mánudaginn

31.3.2012

Stelpurnar í U19 léku í dag fyrsta leik sinn í milliriðli EM U19 en riðillinn er leikinn í Hollandi.  Fyrstu mótherjarnir voru einmitt heimastúlkur og lauk leiknum með jafntefli, 1 - 1, eftir að Ísland hafði leitt í leikhléi.  Lára Kristín Pedersen skoraði mark Íslands á 36. mínútu en heimastúlkur jöfnuðu á 78. mínútu.

Næsti leikur Íslands í riðlinum er gegn Rúmenum á mánudaginn en Rúmenar lögðu Frakka í dag, frekar óvænt, 1 - 0 og tróna því einar á toppi riðilsins.

Tómas Þóroddsson var á leiknum og sendi okkur eftirfarandi umfjöllun:

Íslenska U-19 ára landsliðið kvenna hóf leik í dag í milliriðli Evrópumótsins. Leikið var gegn Hollendingum, en keppnin fer fram í Hollandi. Fyrirfram var búist við hörku spennandi leik og stóð hann ágætlega undir væntingum. Íslensku stúlkurnar voru betri í leiknum, en þurftu þó í lokin að sætta sig við 1-1 jafntefli eftir að Lára Kristín Pedersen hafði komið þeim yfir með snyrtilegu marki.

Byrjunarlið Íslands var eftirfarandi: Þórdís María Aikan, Fjolla Shala, Glódís Perla Viggósdóttir, Telma Ólafsdóttir, Sandra María Jessen, Anna María Baldursdóttir, Lára Kristín Pedersen, Írunn Þorbjörg Aradóttir, Katrín Gylfadóttir, Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir og Telma Hjaltalín Þrastardóttir.

Íslensku stelpurnar byrjuðu mun betur og strax á 1. mínútu átti Þórdís Hrönn skot í hliðarnetið eftir langt innkast frá Telmu Þrastar. Næstu mínútur voru Íslendingar meira með boltann, án þess þó að skapa sér eitthvað umtalsvert. Þórdís Hrönn var svo aftur á ferðinni og var nálægt því að stela boltanum af markverði sem bjargaði á síðustu stundu. Fyrsta færi Hollendinga kom á 18. mínútu, er þær voru við það að sleppa í gegn, en Glódís Perla og Sandra María voru klókar og náðu að hægja á henni og Glódís komst svo fyrir skot heimamanna.  

Tveimur mínútum seinna komst Katrín Gylfa í ágætis færi eftir góða sendingu frá Glódísi, en var óheppin að skora ekki. Á 27. mínútu átti Lára Kristín fínt skot af um 20 metra færi sem var varið. Tveimur mínútum seinna sluppu þær hollensku einar í gegn en Telma Ólafs náði að bjarga á síðustu stundu með frábæri tæklingu. Á 33. mínútu fékk Telma Þrastar mjög góða sendingu upp kantinn frá Fjollu, en Telmu tókst ekki að gera sér mat úr færinu. Markmaður Hollands tók reglum samkvæmt útspark sem Telma Þrastar hirti, fór upp hægri kantinn og átti frábæra sendingu fyrir. Þar voru Íslensku stelpurnar búnar að fylla teiginn og Lára Kristín hamraði knettinum í netið frá vítapunkti. Staðan því orðin 1-0 fyrir Ísland.

Á 40. mínútu sluppu hollensku stelpurnar einar í gegn, en Þórdís í markinu kom út á móti og lokað vel þannig að sóknarmaðurinn skaut framhjá. Mínútu seinna átti Katrín Gylfa flottan kross og Þórdís Hrönn var hársbreidd frá því að koma sér í dauðafæri. Síðasta færi hálfleiksins fékk Lára Kristín eftir frábæran undirbúning frá Önnu Maríu og Telmu Þrastar, en gott skot hennar var varið. Staðan því nokkuð sanngjörn 1-0 fyrir Ísland í leikhléi.

Hollendingar komu ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og á 51. mínútu áttu þær flott skot sem Þórdís markvörður varði frábærlega. Tveimur mínútum seinna átti Írunn frábæra sendingu inn á Þórdísi Hrönn, sem átti góða fyrirgjöf á Telmu Þrasta, en markmaðurinn bjargaði í horn á síðustu stundu. Á 66. mínútu átti Glódís mjög góða sendingu inn á Telmu Þrastar, en enn og aftur var markmaður Hollands starfi sínu vaxinn og bjargaði í horn. Upp úr horninu náðu Hollendingar að hreinsa, en boltinn barst aftur á Þórdísi sem smellti honum fyrir og þar skallaði Lára Kristín boltann snyrtilega í netið, en pólski línuvörðurinn flaggaði rangstöðu.

Á 69. mínútu kom Guðmunda Brynja inn fyrir Katrínu Gylfa. Eftir 30 sekúndur var Gumma búinn að koma sér í frábært færi er hún stakk sér í gegn hægra megin. Gumma var óeigingjörn, setti boltann fyrir þar sem hann dansaði á milli tveggja varnarmanna á línunni og endaði í horni. Fimm mínútum seinna varði Þórdís María frábærlega skot Hollendinga af um 18 metra færi.

Á 78. mínútu fengu Hollendingar góða sókn. Eftir fyrirgjöf frá hægri náði Hollendingur að skalla boltann í netið. Vel af þessu marki staðið hjá Hollendingu og staðan orðin 1-1. Á 82. mínútu kom Sóley inn fyrir Þórdísi og fjórum mínútum seinna kom Svava Rós inn fyrir Láru Kristínu.

Eftir mark Hollendinga tóku íslensku stelpurnar strax yfirhönd í leiknum, eftir að hafa leyft Hollendingum að koma sér inn í leikinn. Ekki tókst þó að nýta yfirburðina út á velli nægilega vel og því þurftu þær íslensku að sætta sig við 1 stig í leiknum. Ef leikurinn hefði verið nokkrum mínútum lengri er nokkuð víst að sigur hefði náðst, en það þýðir ekkert að svekkja sig á því.

Næsti leikur er á mánudag gegn Rúmeníu og hefst leikurinn kl 15.00 á íslenskum tíma. Þær rúmensku komu á óvart með góðum sigri á Frökkum í dag. Það er því næsta víst að um erfiðan leik verður að ræða á mánudag.       

 


Mót landsliða
Landslið
Aðildarfélög
Aðildarfélög