Fréttir

KSÍ - Alltaf í boltanum

5.5.2006

Ályktanir vegna vændis í tengslum við HM 2006

KSÍ mun koma ályktunum á framfæri en minnir á að FIFA eru óháð íþróttasamtök

Stjórn KSÍ hefur borist ályktun Prestastefnu 2006 og ályktun 14 kvennasamtaka þar sem vændi í tengslum við HM í Þýskalandi er mótmælt.

Stjórn KSÍ mun koma ályktunum ofangreindra samtaka á framfæri við Alþjóðaknattspyrnusambandið (FIFA) en minnir á að FIFA eru óháð íþróttasamtök sem ber að virða alþjóðalög og landslög um heim allan.

FIFA - Alþjóða knattspyrnusambandiðKSÍ er eitt af 207 aðildarlöndum FIFA og ber sem slíkt að virða ákvarðanir þess. Þá skal þess getið að FIFA hefur þegar sent frá sér ályktun vegna þessa máls sem finna má á vefsíðunni fifa.com.

Knattspyrnuíþróttin hefur á margan hátt rutt brautina fyrir skilningi manna á milli og sanngjarnari heimi.  Það hefur ekki síst tekist vegna þess að knattspyrnuhreyfingin um heim allan hefur gætt þess að hlutast ekki til um málefni á vettvangi stjórnmála einstakra ríkja.  Þess í stað hafa knattspyrnusamböndin innan FIFA og FIFA sjálft reynt að láta gott af sér leiða með ýmis konar góðgerðarstarfsemi og ályktunum sem beinast gegn hvers kyns mannréttindabrotum.

Úrslitakeppni HM í Þýskalandi á að vera glæsilegur vettvangur knattspyrnuleiksins - leiks sem á enga samleið með mannréttindabrotum af nokkru tagi. Það er markmið FIFA, þýska knattspyrnusambandsins og þátttökuliðanna 32 í sumar að endurspegla þau gildi og þess má geta að FIFA hefur ákveðið að tileinka þessa keppni réttindum barna, friði og baráttu gegn hvers kyns fordómum.

KSÍ mun ekki tjá sig frekar um málið í fjölmiðlum.
Fréttir
Aðildarfélög
Aðildarfélög