Fræðsla
Arnar Bill Gunnarsson

Viðtal við Arnar Bill Gunnarsson

Arnar er yfirþjálfari yngri flokka Breiðabliks í knattspyrnu og umsjónarmaður Afreksskóla Breiðabliks

4.4.2008

Arnar Bill er íþróttafræðingur frá Laugarvatni, en því námi lauk hann árið 2002. Arnar Bill útskrifaðist einnig með UEFA A þjálfaragráðu frá Danmörku árið 2002 og er nú yfirþjálfari yngri flokka hjá Breiðabliki, þar sem mikill fjöldi barna og unglinga æfa knattspyrnu.

Nafn: Arnar Bill Gunnarsson

Aldur: 33 ára

Starf: Yfirþjálfari yngri flokka Breiðabliks í knattspyrnu og umsjónarmaður Afreksskóla Breiðabliks.

  1. Í hverju fellst þitt starf hjá Breiðabliki? Sem yfirþjálfari yngri flokka Breiðabliks í knattspyrnu felst starfið fyrst og fremst í því að veita þjálfurum félagsins stuðning og fylgja því eftir að þeir vinni eftir stefnu félagsins. Einnig stýri ég séræfingum fyrir efnilegustu leikmenn okkar í 4. og 3. flokki karla og kvenna.   Sem umsjónarmaður Afreksskólans er aðalhlutverkið að halda skólanum gangandi, faglega (sem betur fer þarf ég ekki að sjá um fjárhagslega þáttinn). Ég skipulegg einnig hvernig félagið nýtir þá tíma sem það fær úthlutað á knattspyrnuvöllum Kópavogsbæjar og held utan um mótamál félagsins.   Ég stjórna æfingum fyrir leikmenn Breiðabliks sem stunda nám við Menntaskólann í Kópavogi, en þeir nemendur mæta þrisvar sinnum í viku á skólatíma á æfingar í Fífunni. Þessar æfingar koma í staðin fyrir hefðbundna íþróttakennslu.
  2. Hver eru þín markmið sem yfirþjálfari yngri flokka Breiðabliks? Markmiðin eru helst þau að allir iðkendur Breiðabliks fái góða þjálfun og verkefni við hæfi.
  3. Hvað gefur þjálfun þér? Ég er menntaður íþróttafræðingur og þ.a.l. kennari. Ég hef mjög gaman að því að kenna krökkunum og þannig gera þau betri í knattspyrnu. Það er mjög gefandi að verða vitni að því þegar kennsla skilar sér í leiknum.
  4. Hvað eru margir krakkar að æfa fótbolta í yngri flokkum Breiðabliks? Það eru um 800 krakkar sem æfa knattspyrnu hjá Breiðabliki. Þar af eru um 580 drengir og 220 stúlkur. Stærstu flokkarnir eru 7.-6.-5.- og 4. flokkur karla en það eru um 100 drengir í hverjum flokk fyrir 5_flokkur_Breidablik_2006sig.
  5. Hvað gerir Breiðablik til að fá krakka til að æfa fótbolta? Breiðablik stendur ekki í harðri markaðsbáráttu um að fá sem flesta iðkendur til félagsins. Það birtast kynningargreinar um Breiðablik og knattspyrnu í Breiðabliki í blöðum sem Kópavogsbær gefur út til að kynna íþróttastarf í bænum. Aðalástæðan fyrir miklum fjölda iðkenda í Breiðabliki er hversu gott starf er unnið innan félagsins. Ef foreldrar og iðkendur eru ánægðir með þjónustuna þá skilar það sér alltaf í fleiri iðkendum. Vinsældir knattspyrnunnar eru líka alltaf að aukast og það hjálpar að sjálfsögðu til.
  6. Hver er hugmyndin á bak við Afreksskóla Breiðabliks? Markmið skólans er að skapa topp afreks umhverfi, aðstöðu og umgjörð fyrir efnilegasta íþróttafólk Breiðabliks. Í framhaldi af því er vonast til að nemendur skólans þróist úr því að vera efnilegt íþróttafólk í afreksíþróttafólk.  Verkefnið er keyrt þvert á félagið, þ.e.a.s. allar deildir/íþróttagreinar innan Breiðabliks taka þátt í verkefninu. Skólinn er fyrir unglinga á aldrinum 14-20 ára.
  7. Hvernig hefur Afreksskólinn gengið? Afreksskólinn hefur gengi geysilega vel. Krakkarnir fá núna topp þjónustu frá félaginu. Þau hafa greiðan aðgang að lækni, sjúkraþjálfara, sálfræðingi, næringaráðgjafa og fá kennslu og fyrirlestar um viðfangsefni sem nýtast þeim ef þau ætla sér að verða afreksíþróttafólk.
  8. Mælir þú með að félög sem hafa tök á að setja slíkan skóla á laggirnar geri það? Engin spurning. Því betri stuðning sem krakkarnir fá því meiri líkur eru á að þau láti að sér kveða fyrir félögin sín í framtíðinni. Það er hverju félagi mikilvægt að hafa sterka einstaklinga/lið sem ná árangri og haldi þannig merki félagsins á lofti.
  9. Ertu með einhver góð fyrir önnur félög um hvernig hægt sé að byggja upp öflugt yngri flokka starf? Að mínu mati skiptir mestu máli að finna góða þjálfara og gera vel við þá. Það eru þeir sem leiðbeina krökkunum og þjálfari sem er faglegur og hvetjandi og höfðar til iðkendanna er gulls ígildi.
  10. Getur þú lýst aðeins þínum þjálfaranámsferli og skólanum sem þú varst í í Danmörku? Námsferillin hófst á Laugarvatni í Íþróttakennaraháskólanum. Ég lauk síðan KSÍ IV áður en ég fór í þjálfaraskóla í Danmörku. Samhliða náminu á Laugarvatni þjálfaði ég á Álftanesi undir stjórn Janusar Guðlaugssonar og það var góður skóli. Skólinn í Danmörku hét Danmarks Elite-Trænerskole Aalborg. Þar voru kenndar svipaðar greinar og á Laugarvatni (m.a. lífeðlisfræði, líffærafræði, sálfræði, kennslufræði og þjálffræði) nema munurinn var sá að þetta var allt tengt knattspyrnunni. Hluti að náminu var að þjálfa lið og var ég aðstoðaþjálfari hjá dönsku neðrideildarfélagi (Brönderslev IF). Við sem sóttum námið fengum einnig að þjálfa lið í nágrenni við skólann á skólatíma þar sem við fengum gagnrýni frá hver öðrum og kennara. Að mínu mati var það öflugasti hluti námsins, það er verklegi hlutinn.   Ég var í eitt skólaár í Álaborg og tók að lokum UEFA-A próf í gegnum danska knattpyrnusambandið. Þar þurfti ég að skila inn skýrslu/ritgerð þar sem ég hafði leikgreint leiki í dönsku úrvalsdeildinni og meistaradeild Evrópu. Leikgreindi ég gabbhreyfingar, þ.e. hversu oft lið fengu færi og hversu oft það leiddi til marka eftir að leikmaður hefði átt vel heppnaða gabbhreyfngu í sókninni. Skýrslan var 60 blaðsíður. Síðan þurfti ég að stýra 90 mínútna æfingu sem tengdist niðurstöðum skýrslunnar og loks verja skýrsluna og æfinguna og svara almennum spurningum í 90 mínútur. Þetta er strembið ferli og aðeins 40% þeirra sem taka UEFA-A próf í Danmörku ná prófinu.

Arnar Bill skrifað greinagerð um þjálfaranámskeið sem hann sótti í Danmörku 2006 og greinagerðina má finna á slóðinni /fraedsla/greinar-og-vidtol/
Fræðsla
Aðildarfélög
Aðildarfélög