Fræðsla
Stöndum saman gegn einelti

EKKI MEIR - Fimm fræðsluerindi um einelti, forvarnir og úrvinnslu eineltismála

Fyrirlesari er Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur og höfundur bókarinnar EKKI MEIR

10.10.2013

Æskulýðsvettvangurinn (ÆV),  samstarfsvettvangur Ungmennafélags Íslands, Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi og Slysavarnafélagsins Landsbjargar, stendur fyrir í október fimm fræðsluerindum um einelti, forvarnir og úrvinnslu eineltismála.

Fyrirlesari er Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur og höfundur bókarinnar EKKI MEIR sem er leiðarvísir í aðgerðum gegn einelti fyrir starfsfólk skóla, íþrótta- og æskulýðsfélög, foreldra og börn.

Tilgangur og markmið með fræðsluerindinu er að vekja fólk til enn frekari vitundar um mál af þessu tagi og mikilvægi þess að vera vakandi fyrir einelti og annarri óæskilegri hegðun. Fólk sem starfar með börnum og ungmennum dagsdaglega er sérstaklega hvatt til þess að mæta.

Meðal efnisþátta eru: Staðarmenningin og starfsfólkið. Forvarnir gegn einelti á vinnustöðum, skólum og í félögum. Fjallað er um birtingamyndir eineltis og helstu orsakir, aðstæður og persónueinkenni þolenda og gerenda. Í fræðsluerindinu lýsir Kolbrún vinnuferli sem einkennist af markvissum og faglegum vinnubrögðum frá því að mál er tilkynnt og þar til því er lokað.  Farið er yfir helstu ástæður þess að eineltismál koma upp og festa sig í sessi.

Á erindinu verður Aðgerðaráætlun Æskulýðsvettvangsins gegn einelti og annarri óæskilegri hegðun dreift sem og eineltis veggspjaldi og siðareglum Æskulýðsvettvangsins sem fjalla annarsvegar um samskipti og hinsvegar um rekstur og ábyrgð

Þátttaka er gestum að kostnaðarlausu. Skráning fer fram á netfanginu ragnheidur@aeskulydsvettvangurinn.is  Við skráningu þarf að koma fram nafn, netfang og hvaða erindi viðkomandi ætlar að mæta á.

Léttar kaffiveitingar verða í boði.

EKKI-MEIR---Fraedsluerindi-um-einelti-forvarnir-og-urvinnslu-eineltismala-  
Fræðsla
Aðildarfélög
Aðildarfélög