Fræðsla

Þjálfaranámskeið KSÍ VI tókst vel

26 þjálfarar voru á námskeiðinu

27.10.2015

Undanfarna viku hafa 26 þjálfarar frá Íslandi setið KSÍ VI þjálfaranámskeið í Danmörku. Þetta er í fyrsta sinn sem námskeiðið er haldið annars staðar en á Englandi en að þessu sinni var farið til Farum, í útjaðri Kaupmannahafnar. 

Hópurinn gisti á Hotel FC Nordsjælland. En hjá danska félaginu FC Nordsjælland ræður Ólafur Helgi Kristjánsson ríkjum. Hópurinn fékk því gott aðgengi að félaginu, fékk fyrirlestur um unglingaakademíu FC Nordsjælland, hitti styrktar- og þolþjálfara aðalliðs félagsins auk þess sem Ólafur fjallaði um sitt starf. 

Síðasta daginn kom svo Guðmundur Þórarinsson og ræddi við hópinn um líf atvinnumannsins hjá FC Nordsjælland. Þjálfarahópurinn íslenski fékk einnig að fylgjast náið með undirbúningi FC Nordsjælland en liðið mætti Aalborg BK á sunnudaginn. 

Farið var á þann leik auk þess sem hópurinn fór á leik Bröndby IF og dönsku meistaranna í FC Midtjylland. Á föstudeginum fór hópurinn í heimsókn til Bröndby IF þar sem Kim Vilfort fór lauslega yfir uppbyggingu félagsins og fylgst var með æfingum hjá unglingaliðum Bröndby IF. Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari A-landsliðs karla, og Arnar Bill Gunnarsson, fræðslustjóri KSÍ, stýrðu leikgreiningu á þessu námskeiði og Janus Guðlaugsson fór ítarlega í tímabilaskiptingu. 

Óhætt er að segja að vel hafi til tekist. Hópurinn var samstilltur, opinn og hvert sem litið var, utan hefðbundinnar dagskrár, var ávallt verið að ræða um fótbolta. Fræðsludeild KSÍ vill koma á framfæri þakklæti til Ólafs, Heimis, Janusar, þjálfaranna 26 og allra annarra sem komu að námskeiðinu. 

Smelltu hérna til að skoða fleiri myndir frá námskeiðinu.

Fræðsla
Aðildarfélög
Aðildarfélög