Dómaramál

Bríet Bragadóttir - ,,Að verða FIFA dómari hefur verið markmið mitt síðustu fjögur árin."

22.11.2017

FIFA gaf á dögunum út nýjan dómaralista og þar var Bríet Bragadóttir á meðal nafna í fyrsta sinn. Hún er jafnframt fyrsta íslenska konan til að komast á listann sem dómari, en Rúna Kristín Stefánsdóttir er þar sem aðstoðardómari. 

Árið 2017 hefur verið frábært fyrir Bríeti, en hún var einnig fyrsta konan til að dæma bikarúrslitaleik á Íslandi þegar hún dæmdi leik ÍBV og Stjörnunnar í byrjun september. Bríet segist skiljanlega vera í skýjunum yfir þessu. 

,,Tilfinningin er frábær. Að verða FIFA dómari hefur verið markmið hjá mér síðustu fjögur árin og það er frábært að það sé að rætast núna,” sagði Bríet.

Hún hefur alltaf verið virkur þáttakandi í knattspyrnu og hóf mjög snemma að mæta á æfingar. 

,,Ég æfði fótbolta allt frá því að ég var lítil og þangað til ég var 18 ára. Fyrst var ég hjá Sindra á Hornafirði meðan ég bjó þar. Ég flutti síðan í bæinn til að fara í framhaldsskóla og æfði ég þá með KR og Þrótti Reykjavík.” 

Það var á meðan hún var í Vesturbænum sem hún tók sín fyrstu skref í dómgæslunni. 

,,Þegar ég var í KR tók ég unglingadómarapróf því allir áttu að taka það á þeim tíma. Fljótlega eftir það meiddist ég það illa að ég gat ekki æft, en á sama tíma var KSÍ einmitt að auglýsa héraðsdómaranámskeið fyrir konur svo ég skellti mér á það. Framkvæmdastjóri Sindra hvatti mig síðan til að dæma á sumrin á meðan ég var í framhaldsskóla og sömuleiðis Magnús, dómarastjóri KSÍ.” 

Þróun Bríetar sem dómari hefur verið hröð og fara verkefni hennar stigvaxandi. Það er þó ljóst í hennar huga hvert næsta markmiðið sé. 

,,Það er að fá A-landsleik. Draumurinn væri að þá verði nægilega margar konur á Íslandi að dæma svo hægt verði að senda tríó frá okkur.” 

Þær stöllur eru nú orðnar tvær á FIFA listanum og því er ljóst að aðeins vantar einn kvenkyns aðstoðardómara svo þessi draumur hennar rætist. Aðeins tíminn leiðir í ljós hvenær það gerist.
Dómaramál
Aðildarfélög
Aðildarfélög